08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (3529)

76. mál, raforkusjóður

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Þetta svar hæstv. ráðh. er stutt, en ákveðið. En nú veit hæstv. ráðh., að svona svar er ekki hægt að sætta sig við, m. a. vegna þess, að það er tvímælalaust, að ríkissjóði ber að greiða meira fé 1946 en hefur verið gert, og það er tvímælalaust, að lög frá Alþ. eins og raforkul. upphefja þann þátt fjárl., sem snertir þennan lið, raforkuna. Þetta veit ég að hæstv. ráðh. hefur leitað sér upplýsinga um, þó að hann sé ekki lögfræðingur. Ég treysti því þá, að hann sé svo sanngjarn að viðurkenna, að ríkissjóði ber að greiða þetta. Hins vegar gæti ég sætt mig við það, að þessi skuld yrði greidd snemma á næsta ári, og ef hæstv. ráðh. fyndist það eðlilegra eða betra að taka þessa upphæð á fjárl., til þess að ekki þurfi að taka hana á fjáraukal., þá er ekki nema sjálfsagt að samþ. það, ef hæstv. ráðh. vill beita sér fyrir því, að þessi upphæð verði tekin á næstu fjárl. alveg aukalega fram yfir það, sem gert hefur verið ráð fyrir að yrði á fjárl. fyrir næsta ár. Það er ekki nema sjálfsagt að koma þannig á móti hæstv. ráðh. og gera samkomulag í þessum efnum. En það, sem vantar í svarið hjá hæstv. ráðh., er þetta: Vill hann beita sér fyrir því, að þessi upphæð, hvort sem er 1 eða 1½ millj., verði sett inn á næstu fjárl. fram yfir það, sem annars yrði sett 1 fjárl. fyrir næsta ár? Ef hann vill gera það, þá vil ég sætta mig við þá afgreiðslu málsins.