31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3533)

180. mál, olíu- og bensínverð

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þál. sú, sem hv. þm. Snæf. vék að og var samþ. á Alþ. 28. febr. s. l., var á þá leið, að ríkisstj. var falið að athuga verðlagningu á olíum og benzíni með það fyrir augum að athuga álagningu og jöfnunarverð á hinum ýmsu stöðum á landinu. Fjárhagsráði var falið að gera þær athuganir, sem voru nauðsynlegar í þessu sambandi, vegna þess að það er sá aðili, sem um þessi mál fjallar. Þar var rætt um það, hvort gera skyldi nýja rannsókn á reikningum olíufélaganna, en frá því var fallið vegna þess, hve það var mikið verk. Hins vegar lá fyrir síðasta rannsókn, sem gerð var til að finna verðlagsgrundvöll fyrir þessa vöru.

Í ársbyrjun 1949 lét verðlagsstjóri gera rannsókn á rekstri félaganna. Þessi rannsókn var gerð af löggiltum endurskoðendum, sem skiluðu grg. í málinu í janúar 1949. Þegar ákveðið var hámarksverð á benzíni og olíum 1950, var þetta lagt til grundvallar. Rekstrarreikningar félaganna sýna hagkvæman rekstur. Grundvöllur verðlagsins er byggður á því, að fundinn er hinn raunverulegi dreifingarkostnaður félaganna og kostnaði við hverja vörutegund bætt við innkaupsverð og flutningskostnað. Í dreifingarkostnaðinum er meðtalinn allur kostnaður, sem félögin hafa af því að selja vöruna um allt land. Á þessu stigi verðlagsins er raunverulega reiknað sama verð á vörunni um allt land. Frá þessu er síðan dreginn sá tekjuauki, sem stafar af hærra verði úti á landi. Í dreifingarkostnaðinum er innifalin 4% álagning á kostnað vörunnar eins og hann var fyrir gengisbreyt. Fullyrt er, að sá mismunur, sem er á verði vörunnar á hinum ýmsu stöðum, sé miklu minni en mismunurinn á flutningskostnaði milli staða. Hve þessi verðjöfnun er mikil, telur fjárhagsráð, að ekki sé hægt að segja um nema með ýtarlegri rannsókn á rekstri olíufélaganna.

Það er áætlað, að verði verðjöfnun framkvæmd, mundi verðið hækka í Reykjavík á benzíni um 3.7 aura tonnið, hráolíu 2.9 aura tonnið og á steinolíu 52.3 aura tonnið. Þessar tölur eru miðaðar við síðustu endurskoðun á skýrslum félaganna, og getur þetta breytzt eftir breyttu árferði. Það, sem hér liggur fyrir, bendir ótvírætt til, að hægt sé að framkvæma jöfnunarverð á þessum vörum um allt land. Að sjálfsögðu verður verðhækkun á þessum vörum á þeim stöðum, sem nú greiða lægst verð. Þetta yrði að sjálfsögðu kostnaðarauki við útgerð og bifreiðaakstur á þeim stöðum. Ég hef ekki talið ástæðu til, skv. þáltill., að bera undir ríkisstj., hvort hún telji ástæðu til að taka sérstaka afstöðu til málsins. — Ég hygg að þessar upplýsingar svari að verulegu leyti þeirri fyrirspurn, sem fyrir liggur.