31.10.1951
Sameinað þing: 9. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (3536)

180. mál, olíu- og bensínverð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Snæf., að svör hæstv. viðskmrh. voru ekki tæmandi. Á síðasta Alþ. urðu miklar umr. um það, að athuga þyrfti álagningu olíufélaganna og stórkostlegan undandrátt í sambandi við verðfellingu krónunnar og hvernig eitt fyrirtæki gæti selt olíu á 120 kr. ódýrara tonnið. Svar við þessu kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðh. Ef hæstv. ráðh. telur sér ekki skylt að rannsaka þetta, veit ég, að hann gegnir ekki skyldu sinni í embætti. Fái ég ekki betri upplýsingar um þetta, geri ég tilraun til, að till. verði þannig orðuð, að ekki leiki vafi á, hvað athuga eigi í þessu máli, og hæstv. ráðh. skjóti sér ekki undan að svara í skjóli þess, að orðalagið sé ekki nógu skýrt. Ég vil segja, að það sé ófyrirgefanlegt, ef hann gefur ekki allar upplýsingar um þessa álagningu, sem hægt er.