08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3545)

181. mál, drykkjumannahæli

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hófust templarar handa um að koma upp vísi að drykkjumannahæli í Kumbaravogi. Ríkissjóður yfirtók þetta verkefni og kom á stofn drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi. Nú hefur það hæli verið lagt niður og eignin afhent fyrir lítið gjald. Eftir að þetta skeði, var breytt í um drykkjusjúka menn og drykkjumannahæli og ákveðið, að ríkissjóður skyldi leggja til 750 þús. kr. á ári af ágóða vínverzlunarinnar til þess að koma þessari stofnun upp og bæta úr þessum málum. Þá var ekki farið að ráðum þeirra manna, sem höfðu ekki trú á því fyrirkomulagi, sem markað er í l., heldur eftir ráðum annarra aðila og keypt jörðin Úlfarsá til þess að gera þar tilraun, sem þeir, sem bezt þóttu hafa vit á málinu, álitu að mundi gefa beztan árangur. Út af því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. ráðh.: 1. Hvað margir drykkjusjúklingar hafa dvalizt á Úlfarsá á þessu ári, hve löng hefur dvöl hvers sjúklings verið, og hver er árangurinn? 2. Er fyrirhugað að auka starfrækslu hælisins, og ef svo er, þá á hvern hátt? 3. Hver er orðinn stofnkostnaður hælisins frá upphafi, og af hvaða fé er hann greiddur? 4. Hver er rekstrarkostnaður hælisins orðinn til 1. okt. þ. á.? 5. Hvaða ráðstafanir hugsar ríkisstj. sér að gera til bjargar þeim ofdrykkjumönnum, sem enn ráfa hér um og dveljast um nætur í kjallara lögreglunnar eða undir berum himni, hvernig sem viðrar?

Mér er kunnugt um, að áhyggjur fyrir þessum hópi manna eru mestar hjá þeim mönnum, sem hugsa um þessi mál, og það er alvarleg krafa, að aðrar og meiri aðgerðir séu gerðar í sambandi við þessi mál og úrbætur en sýnilega hefur orðið þrátt fyrir hina nýju löggjöf. Ég vænti þess, að það komi fram í svari hæstv. ráðh., að undirbúningur sé hafinn undir það, að svo verði.