08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (3549)

181. mál, drykkjumannahæli

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv. Hann sagði, að það hefði verið eitthvað í ummælum mínum þannig, að mætti misskilja það. Ég tók fram, að rn. væri reiðubúið að leggja fram fé til sveitarfélaganna, og þá fyrst og fremst til Reykjavíkurbæjar, til þeirra hæla, sem hér er rætt um og samkv. 1. sveitarfélögin eiga að standa að að reisa. En úr því að hv. 7. þm. Reykv. fór að rifja upp um það hæli, sem hann kallar rónahæli. sem mér finnst nú varla þinghæft orð, vil ég leyfa mér að taka fram, að svo er komizt að orði í l., með leyfi hæstv. forseta:

„Geðveikrahælið á Kleppi hefur með höndum yfirumsjón með gæzlu drykkjusjúkra manna þeim til umönnunar og lækningar samkv. ákvæðum laga þessara.“ — Og svo segir, að þau sveitarfélög, er koma upp hælum fyrir drykkjusjúka menn, eigi að fá til þess styrk úr ríkissjóði. — Það, sem ber á milli hjá bæjarstjórn Reykjavíkur og landlækni, er aðeins það, hvar hælið skuli reist.

Ég kunni illa við ummæli hv. 7. þm. Reykv. um landlækni, að allt væri eyðimörk, er hann kæmi nærri, því að hann er mætur embættismaður og samvizkusamur og grandvar í sínu embætti. Ég tel ekki sæmandi að hafa slík orð um mætan embættismann ríkisins hér á Alþ. (JóhH: Ef það er rétt og viðeigandi.) Það er ekki rétt og viðeigandi, og embættismenn eiga rétt á sér ekki síður en aðrir menn. Það er ekki einungis landlæknir, heldur einnig yfirmaðurinn á Kleppi, sem telur fjarri lagi að ætla að reisa hælið svo langt frá Reykjavík. Vitanlega verður að komast að samkomulagi um þetta, en ég verð að taka tillit til þess, sem sérfræðingar segja um þetta. (HV: Hvar átti þetta hæli að vera?) Ég held, að það sé bezt, að hv. 7. þm. Reykv. svari því. — Mér finnst málið vera á því stigi, að það verði að reyna að ná samkomulagi. Ég vil mega vænta þess, að hv. 7. þm. Reykv., borgarstjórinn í Reykjavík, taki málið upp að nýju og reyni að ná samkomulagi um, hvar hælið skuli reist. — Það var aðallega þetta, sem ég sá ástæðu til að taka fram.

Hv. þm. Barð., fyrirspyrjandi, lét orð falla um það, að sennilega þyrfti að breyta löggjöfinni að einhverju leyti, og getur það vel verið. Ef á að safna saman á næstu árum fjárfúlgum, sem ekki eru notaðar, tel ég betra að breyta löggjöfinni, svo að hægt sé að hefja framkvæmdir í þágu þessa máls, sem allir eru sammála um að sé mjög nauðsynlegt. Ég skal ekki neita því, að undirbúningurinn hefur dregizt, og kannske óþarflega lengi. eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði, en það er ekki eingöngu rn. að kenna, því að ekki hefur verið sýndur fullur samkomulagsvilji af hálfu stjórnar Reykjavíkurbæjar. Ef erfitt er að komast að samkomulagi, hljóta oftast tveir að eiga þar sök á. Vona ég, að úr þessu greiðist, en treysti mér hins vegar ekki til að leggjast gegn áliti og till. sérfræðinga í þessu máli.