08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3555)

88. mál, upptökuheimili handa vangæfum börnum og unglingum

Fyrirspyrjandi (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Það var á síðasta þingi, að samþ. var þáltill. frá okkur þrem konum, sem þá áttum sæti á Alþ., um að fela ríkisstj. að stofnsetja og starfrækja uppeldisheimili handa vangæfum börnum og unglingum samkv. 37. gr. laga um það efni. Þessi tillaga var fram borin og áreiðanlega samþ. vegna þess, að Alþ. sá, hve brýn nauðsyn væri að reyna svo fljótt sem unnt væri að hefjast handa um stofnun og rekstur slíks heimilis. Það hefur komið fram á síðari árum, með þeim þjóðfélagsbreytingum, sem orðið hafa, að ekki er hægt að koma öllum þeim börnum, sem leiðzt hafa á glapstigu, til vistar á sveitaheimilum, og liggur þá ekki annað fyrir en að koma sem allra fyrst upp uppeldisheimili fyrir þau, svo sem lögin frá 1937 gera ráð fyrir.

Við það, sem fram kom við umræður um till. hér í fyrra, vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að bæta nokkrum nýjum upplýsingum úr skýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1950. Nefndin útvegaði á því ári um 200 börnum og unglingum dvalarstaði, annaðhvort á barnaheimilum eða einkaheimilum hér í bæ eða í sveit. Eru ýmsar ástæður til þessa tilgreindar í skýrslunni. Síðan segir í skýrslunni:

„Nefndin hefur aldrei haft með svo mörg mál að gera sem nú, eða 1/3 fleiri en síðastliðið ár.

Aukning þessi virðist stafa af ýmsum ástæðum. Þær helztu eru þessar: Drykkjuskapur unglinga fer mikið í vöxt nú síðari árin, og er það ekki óalgengt, að unglingar þessir fari að drekka um 14 ára aldur, bæði piltar og stúlkur. Af þessu leiðir alls konar óreglu, lauslæti, flæking, þjófnað og margs konar skemmdarverk. Einnig virðist drykkjuskapur foreldra fara nokkuð í vöxt nú frá ári til árs og þó einkum hjá kvenfólki, því að alltaf eru að verða meiri og meiri brögð að því, að nefndin hafi þurft að taka börn af heimilum vegna drykkjuskapar foreldra. Þá er nokkur aukning vegna slæms húsnæðis, heilsuleysis og þar af leiðandi fátæktar.

Nefndin reynir að fjarlægja þessi börn úr umhverfi sínu með því að koma þeim fyrir í sveit. Stundum lánast það vel, en oftast illa. Unglingarnir tolla ekki í hinu nýja umhverfi sínu, enda er sjaldnast aðstaða til að halda þeim kyrrum. Þeir koma svo í bæinn á ný í sitt gamla umhverfi og taka til við sömu iðju og fyrr. En mörgum þessara unglinga er alls ekki hægt að koma í burtu, bæði vegna þess, að færri og færri heimili fást til að taka þá, og svo neita foreldrar oft að láta þá frá sér.“

Þetta er úr skýrslu um störf barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1950. — Þetta sýnir, að það er sízt minni ástæða en áður til að hefjast handa um stofnun uppeldisheimila skv. l. nr. 29 1947. Þessi fyrirspurn er fram borin af þeim ástæðum.