08.11.1951
Sameinað þing: 13. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (3558)

88. mál, upptökuheimili handa vangæfum börnum og unglingum

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að báðir hv. fyrirspyrjendur eigi við framkvæmd laga frá 1947, en í 37. gr. þeirra laga segir svo:

Ríkisstj. er skylt, eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum, að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skuli börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum. Skulu hæli þessi vera a. m. k. tvö, annað handa stúlkum, en hitt handa piltum.“

Hinn 4. nóv. 1949 skipaði þáv. menntmrh. nefnd fimm manna undir forustu dr. Matthíasar Jónassonar til þess að gera tillögur um ráðstafanir til hjálpar og viðreisnar börnum og unglingum á glapstigum.

Var nefndarskipun þessi gerð með skírskotun til ályktana og tillagna uppeldismálaþings sambands íslenzkra barnakennara og barnaverndarráðs Íslands, er háð var dagana 24.–27. júní 1949. — Nefndin skilaði áliti 9. jan. 1950. Leggur hún til: 1. Að stofnað verði upptökuheimili og rannsóknarstöð, sem veitt geti viðtöku börnum og unglingum, sem vegna lögbrota eða annars misferlis þarf að taka af heimilum þeirra um lengri eða skemmri tíma. — Þessi stofnun er talin þurfa að rúma 8–10 vistmenn, pilta og stúlkur. 2. Að stofnað verði uppeldisheimili handa drengjum allt að 15 ára gömlum, er framið hafa lögbrot eða annað misferil. Þetta heimili er talið þurfa að rúma a. m. k. 25–30 drengi. 3. Að stofnað verði uppeldisheimili fyrir pilta á aldrinum 15–20 ára, sem framið hafa lögbrot eða valda á annan hátt vandræðum með hegðun sinni. Stærð þessa heimilis miðist við vistun 15–20 unglinga fyrst um sinn. 4. Að stofnað verði uppeldisheimili handa unglingsstúlkum fram til tvítugsaldurs, er þarfnast sérstaks uppeldis vegna lauslætis og annars misferlis. Þetta heimili þarf að geta tekið við 12–15 stúlkum.“

Skrifstofa húsameistara ríkisins gerði uppdrætti að hælum þessum og áætlun um kostnað við byggingu þeirra. Er byggingarkostnaður áætlaður um 5.8 millj. kr. Teikningar og kostnaðaráætlun voru hinn 26. okt. s. l. sendar fjvn. til athugunar.

Í þessu sambandi má geta þess, að árið 1945 keypti ríkissjóður fyrir atbeina menntmrn. hús við Elliðavatn, og hefur þar síðan verið rekið bráðabirgðaheimili fyrir börn og unglinga. Samkv. upplýsingum stjórnenda heimilisins hefur aðsókn í seinni tíð verið lítil, og rekstrarhalli þessarar stofnunar er í fjárlfrv. því, er lagt er fyrir þetta þing, áætlaður 100 þús. kr. Hér er að vísu um að ræða litla stofnun og ófullkomna, en það verður að gera sér ljóst, að rekstrarkostnaður þeirra barnaheimila, sem talið er samkvæmt framansögðu nauðsynlegt að byggja, verður mjög mikill. Það er því ekki aðeins um að ræða þessar 5.8 millj. kr., sem framkvæmdin kostar, heldur einnig mikið fé til rekstrar þessara hæla.

Allir eru á einu máli um nauðsyn þess að vernda börn og unglinga, sem lenda á glapstigum, og leiða þau til lífsins aftur, en vandinn er sá að sameina það fjárhagsgetunni. Þetta heyrir undir mitt ráðuneyti, vegna þess að barnaverndarráð gerir það. Barnaverndarráð hefur margoft talað við mig, og eftir því, sem það hefur skýrt mér frá, get ég sagt það, að hér er um að ræða knýjandi þjóðfélagsvandamál, sem krefst úrlausnar sem allra fyrst. Tveir af nefndarmönnum, þeir Þorkell Kristjánsson og Magnús Sigurðsson, ferðuðust um nokkurn hluta landsins, einkum Breiðafjörð, með það fyrir augum að leita að heppilegum stað, þar sem hægt væri að reisa hæli án mikils kostnaðar fyrir ríkissjóð. Við þessa rannsókn kom í 1jós, að við mikla erfiðleika var að etja sökum mikils kostnaðar. Þeir komust að þeirri niðurstöðu, að jörðin Breiðavík væri ekki tiltækileg.

Ég er ekki viss um, að sú stefna sé rétt að fara að koma upp hæli af vanefnum á afskekktum stað, eins og t. d. Breiðafjarðareyjum. Ég ber kvíðboga fyrir því, ef svo á að gera, að hælið komi ekki að notum og verði aðeins til þess að tefja málið. Ég tel því mjög nauðsynlegt málefnisins vegna — ég segi málefnisins, að hraða ekki framkvæmdum um of, því að það mundi aðeins vera málinu til tjóns, vegna þess að það væri ekki rétt byggt upp í fyrstu. Þess vegna er ekki aðalatriðið að hrófa einhverju upp, heldur að byggja frá grunni á réttan hátt, fá einhvern traustan grundvöll, sem hægt sé að byggja á.

Þegar litið er á fjárhagshlið þessa máls, verður að gæta þess, hversu vanefnum búin þjóð sem Íslendingar er í því að halda uppi öllum þeim stofnunum og hælum, sem nauðsynlegt er að hafa til þess að geta talizt menningarþjóð.

Ég verð að segja það, að ég hafði ekki gert mér ljóst, hversu knýjandi nauðsyn var hér á ferðum, fyrr en ég hafði haft tal af barnaverndarráði, svo að ég býst við því, að það séu margir þingmenn, sem ekki skilja, hvaða voði er hér á ferðum, en framkvæmd þessa máls er undir því komin, hvort Alþingi sæi sér fært að reisa þau hæli, sem með þarf. Eftir því, sem þeir menn, sem mest hafa með þetta mál að gera, segja, telja þeir knýjandi nauðsyn á einu hæli nú þegar. Sá maður, sem kunnugastur er þessum málum, hefur tjáð mér, að með einu hæli yrði hægt að bjarga fjölda barna og unglinga frá glötun og gera þau að nýtum þjóðfélagsþegnum.