14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (3569)

98. mál, stóreignarskattur

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar lögin um gengislækkun, launabreytingar o. fl. voru afgreidd á Alþingi árið 1950, þá var í þeim ákvæði um, að sérstakur stóreignaskattur skyldi á lagður. Ástæðan til þessa var sú, að það þótti sýnt og var viðurkennt af öllum, að sparifjáreigendur og aðrir þeir, sem lausa peninga áttu, og launastéttir yfirleitt mundu bíða halla af gengisbreytingunni og það jafnvel þótt greiddar yrðu uppbætur á launin samkvæmt ákvæði gengisbreytingarl. Hins vegar þótti einnig sýnt, að verðhækkun mundi verða á fasteignum, og því var talið eðlilegt, að metin yrðu nokkuð jöfnuð með því, að sérstakur stóreignaskattur yrði lagður á stóreignir manna og sérstaklega með tilliti til verðgildis eignanna. Um þennan skatt hefur verið furðu hljótt að öðru leyti en því, að nú er búið að auglýsa, að gjalddagi á skattinum muni vera 15. nóvember, sem er á morgun.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hversu miklu skatturinn nemur í heild á öllu landinu, hve mikið af skattinum kemur hér í Reykjavík og hvort ekki verði lögð fram skrá yfir þessa skattálagningu eins og skrá er lögð fram yfir tekju- og eignarskattinn.

Þegar áðurnefnd lög voru sett árið 1950, var svo ráð fyrir gert, að hækkun á framfærslukostnaði af völdum gengisbreyt. mundi ekki nema meiru en 11–13%. Reynslan sýnir okkur nú, að hækkunin er orðin á vísitölunni hvorki meira né minna en 51%. Hafi þótt ástæða til að jafna metin, eins og ég áður sagði, með tilliti til þeirrar hækkunar á framfærslukostnaði, sem gert var ráð fyrir, þegar l. voru samþ., þá er augljóst, hve miklu ríkari ástæða er til þess nú af þessum ástæðum og vegna verðhækkunar á fasteignum síðan gengisbreyt. var gerð heldur en ráð var fyrir gert.

3. lið fsp. þarf ekki að svara, af því að auglýsing hefur komið um það síðan fsp. var lögð fram. En hæstv. ráðh. getur gefið svör við því, sem í 4. lið felst, hvort lögð verði fram skrá yfir greiðslu þessa skatts, þannig að gjaldendur geti borið sig saman við aðra gjaldendur, eins og tíðkast um tekju- og eignarskattinn.