14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

98. mál, stóreignarskattur

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Skylt er að þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitir.

Ég vil leyfa mér að endurtaka tölurnar, þannig að ekki verði rangt með farið. Heildartölur skattsins upplýsir ráðh. að verði 49,1 millj. kr. Þar af 42,5 millj. kr. í Reykjavík, og koma þá á alla landsbúa utan Reykjavíkur um 6,6 millj. kr. Hins vegar hefur hæstv. ráðh. ekki upplýst, enda ekki um það spurt og sennilega ekki á hans færi að upplýsa, hve miklu viðaukaskatturinn samkvæmt eldri l. frá 1947, sem felld voru úr gildi með gengisbreytingarl., mundi hafa numið. Ef hæstv. ráðh. hefði þær tölur, væri fróðlegt að vita þetta.

Ég vil taka fram aftur það, sem ég drap á í fyrri ræðu minni, að þegar þessi skattur var á lagður og lagasetningin ákveðin, þá var svo ráð fyrir gert, að verðhækkun vegna gengisbreyt. yrði aðeins 11–13%. Nú er, eins og áður er sagt, sýnt, að fram til þessa tíma hefur hækkunin orðið ferföld á við þetta. Það hefur þyngt tilsvarandi þær álögur, sem lögin hafa lagt á sparifjáreigendur og launþega, en að sama skapi aukið verðmæti eigna þeirra, sem fasteignum og öðrum verðmætum eiga yfir að ráða.

Ég vildi mega mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann vildi sjá um, að skrá yfir allan skattinn verði lögð fram. Ég fæ ekki séð, hvers vegna aðrar reglur eigi að gilda um skrá yfir þennan skatt en skrá yfir tekju- og eignarskattinn.