14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3575)

183. mál, dilkakjöt

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. öllum er kunnugt, þá er nú svo komið, að nú í miðjum nóvembermánuði eru kjötverzlanir þegar farnar að skammta kjöt til sinna viðskiptamanna. Blöðin skýra frá því, að á þessu hausti sé þegar búið að selja 700 tonn af dilkakjöti til Bandaríkjanna allt fram á síðustu daga. Ég ætla, að þangað til í dag hafi engar upplýsingar legið fyrir um, hvað fyrir þetta kjöt væri greitt, heldur að verðið væri gott og sennilega heldur hærra verð en verðið hér innanlands. Ég sé aftur, að í Tímanum er farið nánar út í þetta.

Það er spurt í þessari fyrirspurn um það, hversu miklar birgðir af dilkakjöti og öðru kjöti séu nú til í landinu, í öðru lagi, hvert er fobverð fyrir það kjöt, sem selt hefur verið og selt er til Ameríku, og í þriðja lagi, hvert verður nettóverð til framleiðenda fyrir það kjöt, sem selt hefur verið til Ameríku. Í því sambandi er rétt að geta þess, að sérstaklega mun vera valið það bezta úr kjötinu fyrir amerískan markað. Í fjórða lagi er spurt um, hvaða nettóverð er áætlað að framleiðendur fái fyrir dilkakjöt, sem selt er innanlands samkv. verðlagsákvörðun framleiðsluráðs landbúnaðarins á þessu hausti, og í fimmta lagi, hvert er verð á líflömbum vegna fjárskipta, miðað við kg í litandi þunga, og hvernig þetta svari til kjötverðs, sem ég vænti, að hægt verði að upplýsa um leið.

Það er augljóst mál, að með þeirri sölu, sem nú þegar hefur verið ákveðin til Bandaríkjanna, hafa verið gerðar ráðstafanir, sem leiða til þess, að óhjákvæmilegt verður að skera verulega niður kjötneyzlu í landinu. Sauðfjárstofn landsmanna hefur gengið saman vegna mæðiveikinnar og kjötframleiðslan minnkað ár frá ári, og á undanförnum árum hefur ekki veitt af þeirri framleiðslu fyrir landsmenn sjálfa. Ég skal játa það og get sagt það strax, að mér finnst ástæða til þess, ef líkur eru fyrir góðum markaði í Bandaríkjunum, að selja nokkurt kjöt á þann markað til þess að halda þeim markaði opnum. En hvort það er 100 tonnum meira eða minna á ári, skiptir engu máli fyrir kjötsöluna til Bandaríkjanna, en hitt mættu forráðamenn landbúnaðarins muna, að sá markaður, sem landbúnaðurinn hefur unnið sig upp á, ef svo mætti segja, er innanlandsmarkaðurinn, þ. e. a. s., það er almenningur í kaupstöðum og kauptúnum landsins, sem hefur keypt kjötið. Svo mun verða enn um langan aldur, ef svipað horfir um okkar atvinnuvegi og gert hefur á undanförnum árum.

Ég vænti, að hæstv. ráðh. geti svarað þessum fyrirspurnum svo skýrt og skilmerkilega, að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um hvert einstakt atriði þeirra, sem um er spurt.