23.11.1951
Neðri deild: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

6. mál, togarakaup ríkisins

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Á síðasta þingi bar ég fram till. um, að breytt væri kyndingu nokkurra gamalla togara. Í því sambandi átti að heimila ríkisstj. að ábyrgjast nokkurt lán. Þessi till. var ekki samþ., heldur aðeins sú till., sem samkomulag var um milli þeirrar n., sem fór með þetta mál, og hæstv. ríkisstj. Í því sambandi lét ég þess getið, að ég efaðist um, að sú ábyrgðarheimild, sem var í þeirri till., mundi nægja til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Ég óskaði því eftir því, að hæstv. ríkisstj. sýndi lipurð í framkvæmd þessara ákvæða, ef eitthvað vantaði á. Um það atriði, hvort þessar tilraunir eigi að vera viðtækar, má alltaf deila. Ég hygg, að hæstv. ríkisstj. fari alls ekki of langt, þótt gerð verði tilraun með fjóra togara, þó að hitt kunni að vera álitamál, hvort gera eigi tilraun með 4, 5, 6 eða jafnvel 7 togara. Ég viðurkenni þá röksemd hæstv. forsrh., að á þessu stigi sé um tilraun að ræða, en um leið tilraun, sem ekki sé svo dýr, miðað við þær vonir, sem hún gefur um árangur, að skylt sé að gera hana. — Þessi till., sem hæstv. forsrh. hefur lagt hér fram, hefur ekki verið til umr. í n., og hefur ekki verið boðað til sérstaks fundar um hana. Ber að skilja það svo, að allir nm. muni sammála um að fylgja þessari till. Ef það koma aftur fram nýjar brtt. fyrir 3. umr., eins og hv. þm. Borgf. eða hv. þm. Hafnf. hafa gert grein fyrir, tel ég rétt, að þær færu til n., þó að málinu væri ekki sérstaklega vísað til n. af þeirri ástæðu. Vil ég þakka fyrir það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur haldið á þeirri heimild, sem hún hefur til þess að gera tilraunir í þessu efni, og sömuleiðis fyrir þessa till. Mun ég ekki bera fram brtt.