14.11.1951
Sameinað þing: 14. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

183. mál, dilkakjöt

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Hæstv. ráðh. svaraði því til, að hann teldi ekki ástæðu til, eins og nú horfir, að gera neinar ráðstafanir til að skammta kjötbirgðirnar, og í öðru lagi, að ríkisstj. mundi taka til athugunar, hvort leyft yrði að selja meira úr landi, en það væri óákveðið, hvort það yrði leyft eða ekki. Ég vil mjög beina því til hæstv. ráðh., að hann leggi sitt lóð á vogarskálina um það, að ekki verði leyfður meiri útflutningur en þegar hefur verið leyfður, og jafnframt, að hann taki til athugunar, hvort ekki sé betra að skammta kjötið nú þegar heldur en að láta menn hamstra, svo að aðrir geti ekki fengið neitt.

Hugleiðingar hæstv. ráðh. voru að mörgu leyti athyglisverðar. Hann fullyrðir, að með því verði, sem nú fáist fyrir kjötið, þá verði sauðfjárbúskapur mjög arðbær atvinnuvegur. Það er gott að heyra. En hæpið er að áætla útflutningsverðið langt fram í tímann eins og það hefur verið þessi tvö haust, sem flutt hefur verið út, því að markaðurinn hefur fyrst og fremst verið hér í landinu. En það mætti þá kannske vænta þess, ef sauðfjárbúskapurinn er svona álitlegur atvinnuvegur, að það mætti létta af þeim 37 milljónum, sem beint eru ætlaðar til landbúnaðarins á ári hverju. Ég vil vona, að það sýni sig, að hæstv. ráðh. taki afleiðingunum af þessum upplýsingum, sem hann veitir hér, og hagi fjárveitingum í samræmi við það.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég áliti sjálfsagt að flytja lítið, takmarkað magn til Bandaríkjanna til að halda opnum möguleikum um útflutning, en með þeim niðurskurði, sem nú hefur verið framkvæmdur og verður framkvæmdur á næstu árum, þá skiptir útflutningur til Bandaríkjanna engu máli. Með þeim stórfellda niðurskurði, sem verið hefur á sauðfé, er þess ekki að vænta á næstunni, nema það eigi að flytja allt kjöt út.

Hæstv. ráðh. svaraði ekki fyrirspurn hv. 3. landsk., sem skiptir meginmáli í þessu sambandi, en hún er sú, hvort ekki verði tekið tillit til þess við ákvörðun verðlags á kjöti innanlands, að hærra verð fæst — samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðh. — fyrir það kjöt, sem út er flutt, því að í þeim útreikningi, sem lagður er til grundvallar við ákvörðun verðlagsins, er reiknað með ákveðnu verði á kjöti, hvort sem það er selt innanlands eða flutt út. Séu því tekjur bóndans miðaðar við verðlagið innanlands, þá liggur í hlutarins eðli, að ef eitthvað er flutt út fyrir hærra verð, þá á að lækka sá hluti, sem seldur er innanlands. — Ég vildi mega vænta þess, að hæstv. ráðh. skyti sér ekki undan því að svara svo sjálfsagðri spurningu sem hér um ræðir.

Hæstv. ráðh. segir, að hér sé ekki um úrval að ræða. Ég verð að segja, að ég hef þá misskilið tilkynninguna frá útflytjandanum, því að ég man ekki betur en sagt sé, að strangar kröfur séu gerðar til gæða kjötsins, bæði um lögun og stærð og þyngd, sem þar skipti mestu máli, og alveg ákveðin skilyrði sett um það. Af hverju? Af því að þeir líta svo á, að innflutningur bezta kjötsins henti bezt til sölu og neyzlu í sínu landi. Að kalla þetta óverðskulduð ummæli til útflytjenda nær ekki nokkurri átt. Þetta var ekki sagt í því tilefni, heldur var ég aðeins að sýna fram á, hverjar kröfur væru gerðar til að leyfi fengist til að selja kjötið.