28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3587)

113. mál, kristfjárjarðir o. fl.

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 214 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn um, hvað líði framkvæmd þál. um kristfjárjarðir. Með þál. 19. apríl 1950 fól Alþ. ríkisstj. athugun á þessum málum. Það, sem einkum vakti fyrir mér með þessari fyrirspurn, er það, að tvær kristfjárjarðir í Snæfellsnessýslu, Innri-Drápuhlíð og Efri-Hlíð, hafa lagzt í eyði, sökum þess að bæjarhúsin voru komin að falli. Engin leið var fyrir ábúendurna að endurbyggja þær, vegna þess að þeir gátu ekki fengið lán út á þær, og lögðust þær því í eyði, þótt þær lægju vel við samgöngum og mörkuðum. Þegar kristfjárjarðir fara þannig í eyði, eins og Innri-Drápuhlíð og Efri-Hlíð, geta þær ekki lengur framkvæmt það hlutverk. sem þeim er ætlað, en það er, að afgjöld þeirra renni til styrktar fátæklingum. Einfaldasta leiðin til úrbóta á þessu er sú, að þessar jarðir séu seldar og söluandvirðinu varið til að stofna sjóð, er hafi sama hlutverk með höndum og jarðarafgjaldinu var ætlað áður. Á þann hátt væri vilji gefandans virtur, og tel ég þetta einfaldasta leið til þess að fullnægja vilja gefandans. — Fyrir fáum dögum hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram í Ed. frv. til laga um viðauka við lög nr. 111 9. okt. 1941, um eftirlit með opinberum sjóðum, á þskj. 230. Ef þetta frv. verður lögfest á þessu þingi, virðist hægt að leysa vandkvæði þau, sem nú eiga sér stað í sambandi við kristfjárjarðir, og gera nauðsynlegar breyt. á skipulagsskrá þeirra. Þetta frv. hæstv. ríkisstj. var lagt fram eftir að ég hafði lagt fram þessa fyrirspurn, sem hér liggur fyrir til umr. En ég sé að það muni geta leyst þau vandkvæði, sem ég hef rætt hér um, ef lögfest verður.