28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

113. mál, kristfjárjarðir o. fl.

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég skal út af fyrirspurn hv. þm. Snæf. gefa þessar upplýsingar: Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, var samþ. þál. viðkomandi kristfjárjörðum 19. apríl 1950, og var hún send félmrn. skömmu síðar. Ráðuneytið lét þá fram fara athugun á því, hvort unnt mundi að gera fullnægjandi skýrslur um eignir þessar eftir þeim gögnum, sem aðgengileg og tiltæk voru hér í Reykjavík og hjá embættismönnum ríkisins yfirleitt. Sú athugun leiddi í ljós, að ekki mundi vera unnt á þann hátt einan að fá fullnægjandi upplýsingar um þessar jarðir og að eðlilegast og bezt mundi vera að safna upplýsingum um jarðirnar hjá oddvitum og bæjarstjórum í öllum hreppum og kaupstöðum landsins. Félmrn. ritaði þá öllum bæjarstjórum og oddvitum á landinu bréf, þar sem spurt var um það, hvort kristfjárjarðir eða sambærilegar eignir væru í héruðum þeirra, og beðið var um að senda svör fyrir 1. maí þ. á. Og það var beðið um, að send væru svör, hvort sem slíkar jarðir væru til í viðkomandi sveitum eða ekki, og ef þær væru þar, þá svör um, hvers virði þær væru, og upplýsingar um það, hvar finna mætti skýrslur um það, hvernig þær væru komnar í þá eigu eða fyrirætlun, sem þær væru í. — 1. október höfðu borizt svör frá 80 sveitarfélögum. Þá var þetta ítrekað til sveitarfélaganna, og í nóv. voru komin svör frá 189 bæjar- og sveitarfélögum. Þá eru ókomin svör frá 36 sveitarfélögum enn, en gera má ráð fyrir, að þau berist fljótlega. Það er nú þegar farið að vinna úr þessum gögnum í rn. og flokka jarðir þessar eftir sýslum og sveitarfélögum, grafa upp gjafabréf um þær og skilríki, eftir því sem unnt er, og verður unnið að þeirri athugun og rannsókn áfram, svo að vænta má, að fyrir geti legið nokkurn veginn tæmandi skýrslur um þessar eignir einhvern tíma á næsta ári. Það mun varla verða fyrr.