28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

113. mál, kristfjárjarðir o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að víkja hér nokkuð að einni hlið þessa máls. Það hefur stundum verið um það rætt, að hætta væri á því, að þessar jarðir, sem gefnar hafa verið fyrr á tímum í ákveðnu augnamiði og væru eign sérstakra sjóða, færu í eyði, vegna þess að ábúendur þeirra hefðu ekki möguleika til þess að gera þær endurbætur á húsum á þeim, sem með þyrfti. Hefur því stundum verið um það talað og síðast nú í ræðu hv. þm. Snæf. hér áðan, að e. t. v. væri rétta lausnin á þessu sú að selja slíkar jarðir og nota andvirði jarðanna til sjóðmyndunar, sem farið væri með eftir þeim fyrirmælum, sem í gjafabréfunum hefðu verið. — Út af þessu vil ég benda á, að ég tel ákaflega varhugavert að raska þeim fyrirmælum, sem út hafa verið gefin í slíkum bréfum, nema brýn nauðsyn krefji. Mér skilst, að það væri hægt að bjarga málinu við með þeim hætti, þar sem t. d. er ákveðið í slíkum bréfum, að ekki megi selja jarðirnar, að leigja þær á erfðafestu, því að það er enginn vandi. Það er nóg af mönnum, sem vilja taka jarðir á erfðaleigu. Síðan gætu þessir ábúendur greitt eftir jarðirnar, eftir sem áður, hæfilegt eftirgjald, en fengju að taka lán gegn veði í þeim eins og jarðeignum ríkisins, sem leigðar eru á erfðafestu, til framkvæmda. — Nú kann að vera, að í einhverjum af þessum bréfum sé líka bann við því að veðsetja jarðirnar færu í eyði, með þessu móti, sem ég í bréfunum bann við því að selja þær, þá skilst mér, að það væri hægt að koma í veg fyrir, að jarðirnar færu í eyði, með þessu móti, sem ég gat um, án þess að brjóta þessi fyrirmæli með sölu jarðanna. Það er vissa fyrir því, að nóg er af mönnum hér, sem eins vel vilja taka jarðir á erfðaleigu eins og fá þær keyptar, svo að vandalaust er að halda jörðunum í ábúð með þeim hætti.

Þetta mál kemur e. t. v. fyrir í öðru formi síðar á þinginu, því að það mun vera eitthvert frv. í hv. Ed. varðandi þetta mál. En mér þótti þó ástæða til að minnast á þetta atriði í sambandi við fyrirspurnina.