21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (3595)

184. mál, mannahald við vöruskömmtun og verðlagseftirlit

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Um fyrri lið fyrirspurnarinnar, um það, hve margir menn vinna hjá fjárhagsráði við vöruskömmtunina, þá starfa þar nú tveir menn við skömmtunina. Grunnlaun þeirra á mánuði eru 5681,00 kr. að viðbættri þeirri uppbót, sem nú er greidd á laun, sem mundi þá verða 7573,00 kr. Meðallaunagreiðsla á mann árið 1950 var 36747,00 kr.

Síðari liðurinn er um það, hve margir menn vinna við verðlagseftirlit. Hjá verðlagseftirlitinu starfa nú 7 fastráðnir menn í staðinn fyrir 14 áður. Auk þess eru tveir lausamenn, sem ráðnir eru frá mánuði til mánaðar eftir því, hversu mikið er að starfa. Grunnlaun þessara 7 föstu manna og tveggja lausamanna eru á mánuði 21753,00 kr. Að meðtaldri uppbót, eins og hún er nú, þá eru launin á mánuði samtals 29351,00 kr. Utan Reykjavíkur eru 9 menn á ýmsum stöðum, og til þeirra greiðast á mánuði 630,00 kr. á mann að meðaltali, eða 5670,00 kr. samtals.

Ég held þá, að fyrirspurnin gefi ekki ástæðu til frekari upplýsinga.