21.11.1951
Sameinað þing: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (3597)

184. mál, mannahald við vöruskömmtun og verðlagseftirlit

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er rétt, að það virðist nokkuð viðamikið að þurfa að halda uppi skömmtun vegna þessara tveggja vörutegunda. En eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, þá er þessari skömmtun haldið uppi vegna niðurgreiðslu úr ríkissjóði til þess að halda niðri verðlagi.

Það hefur verið nokkuð rætt um það, hvort mætti breyta þessu í betra horf. En við höfum nú ekki enn komið auga á annað form, sem væri hagnýtara eða umstangsminna í framkvæmd en þetta form er. Að fara í það að láta skattheimtumenn ríkisins draga þetta frá, eins og gert var, þegar kjötuppbótin var greidd gegnum hendur skattheimtumanna, þá er það að mörgu leyti viðamikið og flókið starf, og ég held, að sú aðferð mundi ekki gefast betur hvað umstang og kostnað snertir. En sem sagt, okkur er vel ljóst, að það er hvimleitt að þurfa að halda uppi skömmtunarfyrirkomulagi fyrir þessar tvær vörutegundir. En við höfum ekki dottið niður á aðra aðferð, sem betri væri í framkvæmd en þessi aðferð er.