12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (3605)

122. mál, rannsókn gegn Helga Benediktssyni

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sagði í minni fyrri ræðu, að setudómari og menn hans hefðu komið þannig fram við Helga Benediktsson, fjölskyldu hans og starfslið, að vítavert væri. Vil ég nú færa þeim orðum stað.

Hinn 25. nóv. 1950 fór fram rannsókn í lögreglurétti Vestmannaeyja út af óspektum, sem orðið höfðu þar í Eyjum kvöldið áður, 24. nóv. Aðstoðarmenn setudómara, þrír að tölu, komu allir mjög við sögu þessara réttarhalda, enda höfðu þeir verið höfuðpaurarnir í þeim óeirðum, sem leiddu til lögreglurannsóknarinnar. Auk margs annars kom fram í réttinum og viðurkennt af einum af þeim þjónum réttvísinnar, sem setudómari hafði sér til aðstoðar, að hann, þ. e. aðstoðarmaður dómarans, hafði ráðizt að syni Helga Benediktssonar með brigzlum og ókvæðisorðum um hann og föður hans. Mun það — sem betur fer — einsdæmi nú á tímum, að útsendarar yfirvalds, sem vinna að rannsókn mála, geri sig seka um slíkt framferði að áreita með þessum hætti börn þess, sem rannsókninni er beint gegn.

Vitni bar, að annar rannsóknarmaður hafi lýst því yfir við þetta tækifæri, að Hótel H. B. yrði rifið niður 1951.

Framhaldsrannsókn út af óeirðunum fór fram í lögreglurétti Vestmannaeyja 5. des. 1950. Þar mætti aðstoðarmaður setudómarans, sem er nefndur endurskoðandi. Hann segir þar, að 24. nóv., þegar óspektirnar urðu, hafi hinir tveir rannsóknarmennirnir komið til sín í hús það í Vestmannaeyjum, þar sem hann hélt til. Veitti hann þeim vín. Einnig kom þá til hans sem gestur nafngreindur Eyjabúi, og neytti hann víns með þeim. Síðan héldu þeir allir fjórir á hótel Helga Benediktssonar, og segir endurskoðandinn, að sig „minni“, að þeir hafi farið í bifreið Eyjabúans og hann hafi ekið bílnum.

En þessi aðili, aðstoðarmaður setudómarans, hefur fengið eftirþanka í sambandi við þennan framburð sinn. Honum hefur komið í hug, að e. t. v. væri það eitthvað öðruvísi en ætti að vera, að starfsmenn dómsmálastjórnarinnar, sendir til rannsóknarstarfa, sitji að víndrykkju með bifreiðareiganda, en setjist strax þegar því er lokið í bifreiðina hjá þessum manni og aki undir hans bílstjórn gegnum umferðarösina á götum Vestmannaeyjakaupstaðar. Og endurskoðandinn kemur aftur fyrir réttinn að vörmu spori. Þá segir hann, að hann „þori ekki að fullyrða“, að umgetinn Eyjabúi hafi heimsótt sig þennan dag, 24. nóv., en þó „minni sig“, að svo hafi verið.

Það, sem hér liggur fyrir, er því þetta: Aðalaðstoðarmaður setudómarans stendur eins og glópur fyrir lögreglurétti í Vestmannaeyjum 5. des. 1950, ráðvilltur og reikandi í framburði sínum og getur ekki gert lögreglustjóranum grein fyrir einföldustu atriðum, eins og því, hverjir hafi heimsótt hann og hvort hann hafi ferðazt fótgangandi eða í bifreið fáeinum dögum áður. Og þessi maður er helzta haldreipi setudómarans í málarekstrinum gegn Helga Benediktssyni.

Ég verð að segja, að mér brá í brún, þegar ég las útskriftina úr lögregluréttarbókinni og sá þar, hvers konar manneskjur eru í þjónustu dómsmálastjórnarinnar við svokölluð rannsóknarstörf nú á tímum. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh. og aðra hv. alþm.: Hvar er komið réttaröryggi og réttarfari í okkar þjóðfélagi, ef byggja á málarekstur gegn mönnum og dóma á skýrslum frá svona vesalingum?

Vafalaust hefur setudómarinn fljótlega fengið fregnir af rannsókninni í lögreglurétti Vestmannaeyja fyrir ári síðan. Og nú skyldu menn ætla, að hann hefði vikið þessum mönnum úr þjónustu sinni strax þegar honum var kunnugt um framferði þeirra. En það er nú öðru nær. Svo virðist sem hann telji þetta harla gott, eða a. m. k. hafði hann endurskoðandann minnislitla áfram við rannsóknarstörfin. Og setudómarinn átti einnig eftir að sýna það, að hann teldi hina óspektar- og uppivöðslumennina frá 24. nóv. í fyrra manna bezt fallna til þess að vinna í opinberri þjónustu að rannsókn hjá Helga Benediktssyni.

Á næstliðnu sumri sendi umboðsmaður verðgæzlustjóra í Vestmannaeyjum nokkurs konar kæru á Helga Benediktsson. Kvaðst hann hafa sterkan grun um, að Helgi hefði selt hengilás og brýni og tvo eða þrjá smáhluti aðra of háu verði, og óskaði umboðsmaðurinn eftir mönnum úr Reykjavík hið skjótasta til að rannsaka þetta stórmál. Var nú brugðið við og tveir menn sendir flugleiðis til Eyja frá Reykjavík. Til þeirrar farar voru valdir óeirðamennirnir frá 24. nóv., og ég hef fengið upplýst, að við val þeirra til fararinnar var farið eftir tillögum hins margnefnda setudómara, sem taldi þessa menn sérstaklega heppilega til áframhaldandi rannsókna hjá Helga Benediktssyni, vegna þess að þeir væru þar kunnugir frá í fyrra. — Það, að setudómarinn skuli hvetja til þess, að þessir menn séu enn á ný sendir til rannsóknarstarfa hjá Helga Benediktssyni eftir að hafa komið svo svívirðilega fram gagnvart Helga sem áður er lýst, tel ég vera eitt af því, sem sýnir og sannar ótvírætt, að setudómari þessi er ekki hlutlaus rannsóknardómari í þessum málum, eins og vera ber, heldur er hann ofsóknaraðili gegn Helga Benediktssyni.

Af þessum tveim opinberu sendimönnum er það að segja, að þeir komu á skrifstofu Helga og heimtuðu þar bækur og skjöl í sínar hendur. Helgi neitaði kröfum þeirra og kvaðst, sem vonlegt var vegna fyrri kynna af mönnunum, ógjarnan ræða við þá, nema þeir væru undir ströngu eftirliti lögreglunnar. Hurfu þeir burt, en sögðust fara til bæjarfógetans og fá hans aðstoð til að ná skjölum hjá Helga. En þegar til bæjarfógetans kom, mun hann hafa þekkt fuglana, síðan þeir mættu í lögregluréttinum í fyrra, og ekki þótt viðeigandi að styðja þá til nýrra herferða gegn Helga. Voru svo menn þessir að flækjast í Eyjum í nokkur dægur á opinberan kostnað til að bíða eftir flugveðri, en þegar það gafst, hurfu þeir aftur til Reykjavíkur við lítinn orðstír.

En það er lengri sagan af lásnum og brýninu. Enn voru gerðir út tveir flugleiðangrar frá Reykjavík til Eyja út af þeim gripum, verðlagsdómur settur og sakadómur o. s. frv. En þegar síðasti sendimaðurinn kom til Eyja og fór að kynna sér málavexti, sá hann strax, að málatilbúnaður þessi var tóm markleysa, og féll það þar með niður.

Hæstv. dómsmrh. hefur orðið fyrir því óhappi að velja hér mann sem setudómara, sem ekki hefur reynzt hæfur til að fara með málið. Sá skipaði setudómari hefur svo valið algerlega óhæfa menn sér til aðstoðar, og sannast hér sem oftar hið fornkveðna, að það dregur sig saman, sem dámlíkast er.

Framferði þessara manna í málarekstrinum gegn Helga Benediktssyni er svartur blettur á íslenzku réttarfari. Hæstv. ráðh. hefur, eftir því sem fram kom í ræðu hans, ekki haft það eftirlit með rekstri málsins hjá setudómaranum, sem þurfti og honum bar að hafa. Ætti hann að gæta þess betur framvegis að fylgjast með gangi slíkra mála, því að öðrum kosti hlýtur að falla skuggi á ráðh. sjálfan í sambandi við málin, þegar þau eru rekin með öðrum hætti en á að vera.