12.12.1951
Sameinað þing: 23. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

122. mál, rannsókn gegn Helga Benediktssyni

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er stundum óþægilegt að hafa ræður samdar fyrir fram, t. d. af Helga Benediktssyni, eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda áðan. Hann hefur ekki getað fært nein rök fyrir því, að rannsóknardómarinn hafi komið ósæmilega fram gagnvart Helga Benediktssyni. Hins vegar lét hann svo um mælt, að tveir af mönnum verðlagseftirlitsins hefðu, eftir að þeir höfðu framkvæmt rannsóknina gegn Helga Benediktssyni, hegðað sér á annan hátt en viðhlítandi væri. Þetta skiptir engu máli varðandi rannsókn þessa máls, því að niðurstöður álitsgerðar þeirra eru fólgnar í skýrslum þeirra, en ekki því, sem þeir gerðu á eftir. En samt sem áður fyrirskipaði ég strax, að hlutazt yrði til um, að þessir menn hefðu ekki neinar frekari rannsóknir í máli Helga Benediktssonar með höndum, og er það óvenjulegur strangleiki, því að það hefur oft komið fyrir, að menn hafi drukkið sig fulla og verið látið þar við sitja, en ég taldi þó, að slík framkoma væri óviðeigandi, og skipaði því málshöfðun. — En eins og ég sagði, þá hefur þetta engin áhrif á gang þessa máls, því að þetta var eftir að þeir höfðu lokið störfum sínum. En hv. þm. hefur farið hér óvirðingarorðum um setudómarann, kallað hann og menn hans „vesalinga“, og er honum sæmst að biðjast afsökunar á þessum orðum. Hv. þm. er alveg ókunnugur framburði vitnanna fyrir rétti, og hv. þm. misskilur þetta. Ef hann heldur, að það eitt geti gefið tilefni til að stimplast „vesalingur“, að menn hafi setið eitt kvöld að drykkju, þá er ég hræddur um, að það verði nokkuð margir „vesalingar“ hér í heimi. Slíkt ofstæki getur farið sæmilega í munni hv. þm., sem við allir þekkjum að því að vera mikinn reglu- og sæmdarmann, en það hafa ekki allir á sér slíkt orð, og er ekkert á Helga Benediktsson hallað, þótt sagt sé frá því, að hann sem forseti bæjarstjórnar heldur nú oft miklar drykkjuveizlur, og hygg ég, að honum þætti hart að vera kallaður „vesalingur“ fyrir.

Starf setudómara og manna hans verður svo metið eftir rannsókn í rétti, en ekki farið eftir gífuryrðum Helga Benediktssonar um þessa menn. Þetta mál verður skoðað frá réttarfarslegu sjónarmiði og borgar sig alls ekki að gera það að pólitísku bitbeini. Það hefur ekki verið hallað á Helga Benediktsson með neinu í þessu máli, og ef mistök hafa átt sér stað, þá er það ekki vegna pólitískra skoðana. — Hins vegar verð ég að segja, að dýr mundi Hafliði allur, ef hin ólöglega álagning Helga Benediktssonar er á einum hengilás og brýni, vegna þess að í upplýsingum fulltrúa í dómsmálarn. liggur fyrir, að ólögleg álagning hjá Helga Benediktssyni á síðasta sumri nemi 10–20 þús. kr., og ef svo er, þá er töluverð álagningin hjá skjólstæðingi hv. þm. V-Húnv., ef álagning á hengilás og brýni nemur 10–20 þús.

Fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. get ég ekki svarað að svo stöddu. Ég er ókunnugur einstökum atriðum í sakargiftunum á hendur Helga Benediktssyni og hef ekki aflað mér upplýsinga um þetta, enda heyrir Skipaútgerðin að þessu leyti ekki undir mig.