28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (3612)

185. mál, Tryggingastofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir þær glöggu upplýsingar, er hann veitti hér um þetta mál. Hann hefur einnig gefið hér upplýsingar um meira en um var spurt, eins og um heildarupphæðir iðgjalda, sem lögð hafa verið á, o. fl. Það, sem maður rekur augun einkum í, er, hvað innheimta iðgjaldanna er ákaflega misjöfn í hinum ýmsu umdæmum. Að meðaltali hafa ekki fengizt inngreidd 5.6% af álögðum iðgjöldum síðustu ára. En þetta er ákaflega misjafnt. Í nokkrum — fáum — umdæmum er það innan við 1%, sem er óinnheimt, og í tveimur sýslum er ekkert óinnheimt. Annars staðar hefur þetta verið mikill hluti. Í tveimur umdæmum er milli 16% og 17% óinnheimt og í nokkrum um 10% óinnheimt um síðustu áramót. Þetta er mál, sem er vert að taka til athugunar að kippa í lag.

Mér skilst, að Tryggingastofnun ríkisins sé ekki vel á vegi stödd fjárhagslega og að ekki verði hjá því komizt, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að þau sýslufélög, þar sem ástandið er verst, bæti ráð sitt í þessum efnum. Ég býst ekki við, að þeir, sem standa í skilum, sætti sig við þetta. Ég veitti því athygli, að forstjóri Tryggingastofnunarinnar, hv. 4. þm. Reykv., skaut því inn í, að Reykjavíkurbær haldi opnum tryggingaiðgjaldareikningum fram í marz. Ég vildi fá að vita, hvernig það er hjá Tryggingastofnun ríkisins, hvort hún haldi reikningum opnum fram yfir áramót.

Nú er það svo, að Tryggingastofnun ríkisins hefur fleiri tekjustofna en iðgjöldin. Ég hafði ekki spurt um það sérstaklega og á því ekki rétt á að fá því svarað nú, en ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi á takteinum upplýsingar um, hvað líði greiðslu á framlagi bæjar- og sveitarfélaga.

Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram um þetta að svo stöddu og þakka ráðh. fyrir hinar greinargóðu upplýsingar.