28.11.1951
Sameinað þing: 18. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3613)

185. mál, Tryggingastofnun ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Húnv. spurði, hvort Tryggingastofnun ríkisins héldi sínum reikningum opnum fram yfir áramót. Það gerir hún ekki. Hún lokar þeim 31. desember hvert ár.

Mér skildist á hv. þm. V-Húnv., að hann væri heldur lítið ánægður með heildarniðurstöður innheimtunnar. Ég verð að segja það rauplaust, að ég tel, að innheimtan árin 1947–49 hafi gengið vonum framar. Árið 1950 er enn of snemmt að segja um, en því ber ekki að neita, að nokkru þyngra horfir með innheimtuna það ár. — Hv. þm. V-Húnv. fann það einkum að innheimtunni, að hún gengi misjafnlega. Það er að vísu rétt, að aðeins tvær sýslur eru alveg skuldlausar, aðrar með innan við eða um 1% skuld. Hins vegar sér hv. þm., ef hann athugar það, að þetta liggur mest í óinnheimtum iðgjöldum frá árinu 1950. Þá eru það Neskaupstaður og Ólafsfjörður, þar sem óinnheimt iðgjöld eru um 16%. Þessar skuldir stafa af nokkuð sérstökum ástæðum; þar þurfti að innheimta hjá útgerðarmönnum, sem fóru í skuldaskil, og mátti ekki ganga að þeim fyrr en því uppgjöri væri lokið, en þetta kemur nú vonandi í gegnum skuldaskilasjóð. En meginmunurinn liggur ekki í innheimtu frá fyrstu 3 árunum, heldur misjöfnum eftirstöðvum frá árinu 1950.