16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

159. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram til hæstv. ríkisstj. fyrirspurn, sem prentuð er á þskj. 557 og er um það, hvað líði endurskoðun stjórnarskrárinnar, hvar hún sé á vegi stödd. Ég tel við eiga að leita upplýsinga um þetta. Fyrst og fremst af því, að málið — endurskoðun stjórnarskrárinnar — er afar þýðingarmikið, líklega þýðingamesta málið, sem Alþ. gæti nú haft til meðferðar. Og í öðru lagi vegna þess, að hið háa Alþingi hefur gert svo margar og ítrekaðar ráðstafanir til endurskoðunarinnar, að ekki má minna né seinna vera en það fái skýrslu um árangur. Ég vil nú leyfa mér, á þeim stutta tíma, sem ég hef til umráða, að rekja í stórum dráttum sögu málsins á s. l. 10 árum.

Þegar ákveðið hafði verið að slíta konungssambandinu við Danmörku og endurreisa lýðveldi á Íslandi, var skipuð fimm manna nefnd 22. maí 1942 til að gera tillögur um breytingar á stjórnskipunarlögunum, sem gilt höfðu fyrir konungsríkið Ísland. Nefndin var endurskipuð um haustið 1942 og þá bætt í hana þrem mönnum, til þess að í henni störfuðu tveir menn frá hverjum þingflokki. Var hún þar með orðin 8 manna nefnd. Árið 1943 skilar nefndin frv. til stjórnskipunarlaga með greinargerð. Þetta frv. var samþ. og lýðveldið stofnað 1944. En nefndin leit alls ekki svo á, að verkefni sínu væri þar með lokið. Í grg., sem fylgdi frv., segir orðrétt — með leyfi hæstv. forseta, að þetta sé „grg. fyrri hluta þess verkefnis, er henni (þ. e. nefndinni) var falið, en (hún) mun áfram vinna að seinni hluta verkefnisins, sem sé að „undirbúa aðrar breytingar á stjórnskipulaginu, er þurfa þykir og gera verður á venjulegan hátt“. Má ætla, að það starf verði öllu víðtækara og þurfi þar til að afla ýmissa gagna, er nú liggja eigi fyrir, svo og að gaumgæfa reynslu þá, er lýðræðisþjóðir heimsins óefað öðlast í þessum efnum á þeim tímum, sem nú líða yfir mannkynið. Þangað til því verki yrði lokið, ætti sú stjórnarskrá, sem hér er lögð fram, að nægja, enda eru ákvæði hennar mestmegnis þau, er nú gilda í stjórnskipulögum hins íslenzka ríkis, að breyttu hinu æðsta stjórnarformi, frá konungdæmi til lýðveldis o. s. frv.“

Þessi grg. er dagsett 7. apríl 1943, og undir hana rita Gísli Sveinsson, Bjarni Benediktsson, Hermann Jónasson, Stefán Jóh. Stefánsson, Jónas Jónsson, Haraldur Guðmundsson, Einar Olgeirsson og Áki Jakobsson.

Ljóst er af þessari greinargerð, að þessi 8 stórmenni íslenzkra stjórnmála — menn, sem flestir eru enn framámenn hjá stjórnmálaflokkunum — litu svo á, að aðeins væri lokið fyrri hluta endurskoðunarinnar, þ. e. að breyta hinu æðsta stjórnformi frá konungdæmi til lýðveldis, en að hið víðtækara verkefni væri óleyst og það ætti að leysa.

Sönnunin fyrir því, að hið háa Alþingi leit einnig svo á, kemur skýrt fram í því, að Alþ. gerði ráðstafanir 3. marz 1945 til þess, að skipuð var 12 manna nefnd til ráðuneytis 8 manna nefndinni, og heimilaði henni að ráða sérfróðan mann til aðstoðar. Mun n. ekki hafa ráðið sérfræðinginn, en talið sig hafa hann í sínum hópi. Sendi hún þann mann sinn út í lönd til þess að afla gagna og „gaumgæfa reynslu“ annarra lýðræðisþjóða og kynna sér þá tíma, sem þá voru að líða yfir mannkynið“, svo að ég noti hið skáldlega orðalag úr grg. átta manna nefndarinnar.

Var nú svo komið, að Alþingi hafði falið þetta verk tveim n., eða samtals 20 mönnum, sem máttu ráða sér sérfræðing að auki. Ekki átti að spara vinnukraftinn; mikill var hann og álitlegur.

En hvað skeður? Enn líða tvö ár „yfir mannkynið“ — og ekkert gerist, — a. m. k. ekkert, sem þjóðin heyrir eða sér.

Og hinn 24. maí 1947 tekur Alþingi sig til og fellir með ályktun niður umboð þeirra nefnda, sem átt höfðu að starfa að endurskoðun stjórnarskrárinnar, — afskráir mannskapinn í einum rykk.

En ekki skal þó gefizt upp og útgerðinni hætt, heldur ný áhöfn fengin. Felur nú Alþingi ríkisstj. að skipa 7 manna nefnd „til þess að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“ Þingflokkarnir fjórir skyldu tilnefna sinn manninn hver, en þrír vera skipaðir án tilnefningar og einn þeirra vera formaður.

Síðan eru nú bráðum 5 ár liðin „í aldanna skaut“. Alþingi hefur enn ekki séð álit eða tillögur frá nefndinni. Það er áreiðanlega tímabært að spyrja um, hvað störfum hennar líði.

Móðir Völsungs gekk með hann í sex ár, segir Völsungasaga. En þegar hann fæddist, var hann svo þroskaður, að hann var fær í flestan sjó, og hafði líka heyrzt mæla hreystiorð í móðurkviði.

Vel mætti bíða sjötta árið eftir tillögum n., ef vitað væri, að þær yrðu þá með þroska Völsungs, þegar þær loks fæddust. En fóstrið hefur enn ekki heyrzt mæla. svo að ég viti. Og lausafregnir ganga um það manna á milli, að ekki muni á neinu von hjá n. frekar en nefndunum. sem afskráðar voru 1947.

Sannleikann um þetta er rétt og nauðsynlegt, að Alþingi og þjóðin líka fái að vita nú sem hreinskilnislegast. Þess vegna lagði ég fram fyrirspurn mína.

Stjórnarskráin frá 1944 er grundvallarlög, sem sett voru aðeins til bráðabirgða handa hinu endurheimta lýðveldi.

Enginn vafi er á því, að brýn þörf er á breytingum á stjórnarskránni. Lýðveldið nýtur sín ekki á grundvelli þessarar stjórnarskrár. Hinar endurteknu skipanir í stjórnarskrárnefndir votta, að Alþingi hefur álitið breytinga þörf. Og þjóðin hefur gert sér grein fyrir nauðsyn breytinga. Það votta ályktanir margra og víðtækra félagssamtaka — og tillögur, sem fram hafa komið úr ýmsum áttum.

Geti ekki sjö manna nefndin skilað áliti og tillögum bráðlega, þá verður Alþingi að taka til nýrra ráða.

Ég vona, að svör hæstv. ríkisstj. verði þannig, að þau gefi vonir um góðar niðurstöður af starfi nefndarinnar áður en langir tímar líða.