06.12.1951
Neðri deild: 37. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (3645)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er eins og hv. þm. þyki mikið undir því komið, að ég láti ekki undir höfuð leggjast að birta þessa skýrslu, og virðist koma hér hið sama fram hjá honum og í útvarpsumræðunum, er hann hélt því fram, að ég mundi reyna að sjá um, að skýrslan kæmi ekki fyrir almennings sjónir. Ég get fullvissað hv. þm. og friðað samvizku hans og upplýst, að ekki verður langt að bíða eftir birtingu þeirrar skýrslu, sem verðlagseftirlitið hefur gert um þessi efni. Skýrsla þessi er komin fyrir nokkrum dögum, en ég taldi ekki ástæðu til að birta hana þá sérstaklega. En nú er komin önnur skýrsla, sem ég hef ekki haft tíma til þess að athuga vegna sérstakra anna, en þegar ég hef athugað hana, mun hún verða send verðlagseftirlitinu og því heimilað að birta hana opinberlega. Ég sé ekki ástæðu til, að hv. þm. fái að athuga þessa skýrslu, fyrr en hún verður birt innan fárra daga, nema hv. þm. óski sérstaklega eftir því, en þá er velkomið að verða við því.