19.12.1951
Neðri deild: 50. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að beina nokkrum orðum til hæstv. ríkisstj. út af því, sem er að gerast hér í Reykjavík í dag. Ég hef það fyrir satt og vildi mega spyrja hæstv. ríkisstj., hvort satt sé, að verið sé að skipa upp úr Tröllafossi allmiklum farmi af sprengjum og öðrum efnum, sem eru sérstaklega hættuleg meðferðar, og verið að keyra það suður á Keflavíkurflugvöll. Ég vildi í fyrsta lagi leyfa mér sem þingmaður Reykvíkinga að mótmæla, að farið sé með þetta hættulega efni um Reykjavík og höfnin og umhverfi hennar sett í hættu í sambandi við þessa uppskipun.

Í öðru lagi leyfi ég mér að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún viðurkenni, að ríkissjóður sé ábyrgur gagnvart borgurum Reykjavíkur fyrir því tjóni, sem kynni að hljótast af meðferð þessa hættulega efnis. Ég vil vekja athygli á því, að allar eignir Reykjavíkurbæjar, hús og annað slíkt, eru vátryggðar þannig, að í samningum, sem bærinn hefur gert, er undanskilið allt tjón, sem kann að stafa af slíkum sprengingum, sem hlytust af meðferð þessara sprengna hér. Borgarar Reykjavíkur mundu ekki fá slíkt tjón bætt, sem hlytist af slysum í sambandi við uppskipun og keyrslu á þessu efni.

Ég hef við meðferð hernámssamningsins hér í hv. d. áður undirstrikað þá skoðun mína, að samkv. l. nr. 99 16. des. 1943 beri ríkissjóði að greiða allt tjón, sem kann að hljótast af aðgerðum hernaðaryfirvalda Bandaríkja Norður-Ameríku, eins og stendur orðrétt í þeim lögum, og ég álit, að þau gildi enn. Ég leyfi mér því að halda fram, að allir, sem kynnu að verða fyrir tjóni af meðferð þessa sprengiefnis, eigi kröfu á ríkissjóð um bætur. Og ég vildi leyfa mér að biðja hæstv. ríkisstj. að segja af eða á, hvort þetta er hennar skoðun líka, að þessi lög séu enn þá í gildi. Ég vil vekja athygli ríkisstj. á því, að svo framarlega sem menn litu svo á og hefðu þar eitthvað sterkt við að styðjast, svo sem hæstaréttardóm, að l. væru ekki enn í gildi, þá er alveg óhjákvæmilegt að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir, ef svona uppskipun verður haldið áfram, til þess að tryggja menn fyrir hugsanlegu tjóni af því, að Reykjavík á að vera þannig skotfærahöfn.

Í fyrsta lagi hef ég þá mótmælt, að þessi uppskipun og flutningur sé framkvæmdur, og þarf ekki að leiða rök að, hvílík hætta er að fyrir líf og eignir. Í öðru lagi vil ég vekja athygli ríkisstj. á því, að eignir hér eru óvátryggðar gagnvart slíku tjóni. Og samkv. l. frá 1943 álít ég, í þriðja lagi, að ríkissjóður beri ábyrgð á því tjóni, sem kann að verða.