04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (3665)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér, út af þessari tilkynningu hæstv. atvmrh. fyrir hönd ríkisstj., að ítreka í sambandi við bátagjaldeyrinn yfirlýsingu, sem ég hef komið með áður og ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að leysa úr. Þessi listi, sem var lagður hér fram, styðst ekki við íslenzk lög. Og sé hann borinn saman við 7. og 8. gr. í l. um fjárhagsráð, þá er þessi listi upphaflega settur án nokkurrar heimildar í lögum. Og ríkisstj. hefur ekki treyst sér enn þá að hafa tilvísun til þeirra laga, sem þessi listi á að vera settur samkvæmt. Það er búið margsinnis að vitna í það, sem 12. gr. l. um fjárhagsráð fjallar um. Hins vegar hef ég séð 12. gr. l. um fjárhagsráð, sem bannar þessa ráðstöfun, þannig að ég vil taka það fram, að þessi tilkynning er tilkynning um ólöglega ráðstöfun ríkisstj., sem og allar hennar tilkynningar um bátagjaldeyrinn. Ég vildi leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstj. að leggja þetta mál nú fyrir þingið til samþykktar eftir á og koma þannig með lagafrv. um þetta, hvernig sem hún vill hafa það, þannig að í fyrsta lagi hefði Alþ. tækifæri til að úrskurða um, hvort ríkisstj. hefði slíka heimild fyrir þessum ráðstöfunum; og í öðru lagi, að Alþingi hafi svo tækifæri til að koma fram með till. viðvíkjandi þessu máli.

Hæstv. atvmrh. minntist á, að engar till. hefðu komið fram frá stjórnarandstæðingum í þessu máli. Það er erfitt fyrir stjórnarandstæðinga að koma með till., þegar málið er ekki lagt fram á Alþingi. En ef það væri lagt fyrir, þannig að hægt væri að koma með till., þá mundi það verða gert, en það er ekki hægt eins og meðferð þessa máls hefur verið.

Mér virðist, að ríkisstj. rugli saman tveimur atriðum, þegar hún er að verja þetta mál, eins og kom fram í ræðu hæstv. atvmrh. Hann sagði, að menn héldu því fram, að þetta væri brot á gjaldeyrislögunum. Gjaldeyrisl. eru lög frá Alþingi og staðfest af forseta. En þegar hæstv. atvmrh. fer að tala um gjaldeyrisl., kemur í ljós, að hann á ekki við l. frá Alþingi, heldur á hann við lög alþjóðasamtakanna, sem Íslendingar eru þátttakendur í. Og það, sem hann kallar gjaldeyrisl., eru lög alþjóðasamtaka margra þjóða. Og síðan segir hæstv. atvmrh., að það hafi verið haft samráð við alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en samráð voru ekki höfð við Alþingi Íslendinga. Það kom maður hingað frá þessum alþjóðagjaldeyrissjóði til þess að ræða við ríkisstj. Það var ekki haft fyrir því að ræða þetta mál við Alþ. Síðan segir hann, eftir að hafa kynnt sér þetta mál, að vafasöm heimild sé fyrir hendi. En ríkisstj. hefur ekki einu sinni fyrir því að sanna fyrir Alþ., að hún hafi leyfi til þessa. Svo fær ríkisstj. skilaboð um, að þetta sé allt í lagi, fyrst samráð við útlendinga, síðan tilkynning til Alþ., og segir bara: Ef þið rifizt út af því, hvort þetta sé í samræmi við íslenzk lög, þá svörum við því ekki. — Enda er ríkisstj. líka farin að ímynda sér, að þau lög gildi hér á Íslandi, sem eru lög alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en ekki þau lög, sem Alþingi Íslendinga setur. Og hæstv. atvmrh. segir, að ekki þurfi að bera kvíðboga út af því, að þetta sé brot á l. gjaldeyrissjóðsins. En annaðhvort er það brot á þeim eða þá brot á íslenzkum lögum.

Ég vildi óska, að ríkisstj. gæfi Alþingi tækifæri til að ræða þetta mál og koma fram nokkrum brtt. í sambandi. við það. Og jafnvel er hugsanlegt, að hægt væri að fá einhverju áorkað í betri átt. Það hefur sýnt sig, að andstaða gegn þessu máli er til hjá stuðningsmönnum ríkisstj.

Ég vil enn fremur taka það fram, að fyrir utan það ólöglega í þessu máli, þá er hér verið að hlaða óþarfabyrðum á herðar almennings, með því að hér er verið að taka upp þá dýrustu innheimtuaðferð, sem hægt er að fá. Það vita allir, að kostnaðurinn við innheimtuna verður eins mikill og bátagjaldeyririnn er og jafnvel meiri. Þetta er dýrasta innheimtuaðferð, sem fundin hefur verið enn þá. Þegar fiskábyrgðin var, þá var það miklu ódýrari aðferð. Hitt er svo annað mál, að hér er verið að framkvæma hægt og hægt gengislækkun, án þess að Alþ. fái nokkuð við því sagt.

Mun ég svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil bæta því við, út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að það er hart, að sama dag sem ríkisstj. flytur þessa tilkynningu hér á Alþingi, þá skyldi blað Framsfl.-manna segja í leiðara sínum:

„Nú þessa dagana er verið að auka hinn svokallaða bátagjaldeyrislista. Það þýðir, að margar nauðsynjavörur almennings verða miklu dýrari en ella. Það er rökstudd skoðun, að þetta hefði verið óþarft að miklu eða öllu leyti, ef frjálsræði hefði ríkt í útflutningsverzluninni og samkeppni ríkti um það að tryggja útvegsmönnum og sjómönnum sem hæst fiskverð.“

Ég skil þessa yfirlýsingu Framsfl. í blaði sínu á þá leið, að það muni að öllum líkindum samið um leið og samið var um bátagjaldeyrinn og að þessi einokun eigi að halda áfram. Og síðan segir blaðið að lokum:

„Ef Sjálfstfl. vill vera samkvæmur þeirri stefnu að auka verzlunarfrelsið, getur hann ekki haldið áfram að verja og vernda saltfiskseinokunina. Það er ekki forsvaranlegt að leggja á þjóðina nýjar og nýjar byrðar í formi aukins bátagjaldeyris, án þess að reynt sé að afstýra þeim með aukinni samkeppni í fiskverzluninni og öðrum slíkum ráðstöfunum.“

M. ö. o., þarna er lýst yfir, að þetta sé óþarfi og stafi af því, að ekki sé hægt að semja um rýmilegt frjálsræði í útflutningsverzluninni. Og ef þetta á svo að verða kjaftshögg á almenning, sem ríkisstj. setur fram í dag, þá er þessi leiðari kjaftshögg á ríkisstjórnina.