04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ekki er hægt að segja fyrir um, hve mikil eftirspurn eftir vörum á bátagjaldeyrislista verður. Úr því getur ekki skorið nein reynsla, dg verður þar ágizkun ein að ráða, og má ætla, að um nokkra aukningu verði að ræða. Vil ég þó ekkert fullyrða að svo komnu. Ég vil ekki heldur ræða, hvað af þessum fríðindum kemur bátaútveginum til góða. Það er búið að ræða það mál hér við eldhúsumræður. Eru margir, sem óttast, að kaupsýslumenn reyni að hagnast óeðlilega á þessari vöru, ef ekki eru takmörk sett fyrir álagningunni. Svo virðist ekki ætla að verða, og færist allt í eðlilegra horf nú með minnkandi álagningu. Er ekki ástæða til að gera ráð fyrir því, að möguleikar skapist fyrir óeðlilega álagningu, þó að á byrjunarstigi þessa máls hafi þeir, sem fyrstir náðu í bátagjaldeyri, getað seilzt til óeðlilegs ágóða. Sú gullöld er nú liðin. Ég geri mér vonir um, að sú skipan, sem komið var á í fyrra, þurfi ekki að leiða til nýs gengisfalls, því að þá verður ekki hægt að fara eftir óbreyttu gildi krónunnar í öðrum efnum. Ef sæmilegt árferði hefði verið, hefði verið hægt að draga úr þessum fríðindum. En eins og allir hv. þm. vita, hefur verið aflabrestur, auk þess sem síldin hefur brugðizt undanfarin 7 ár. Hagur útvegsmanna stendur því höllum fæti vegna aflabrests, og fyrst og fremst vegna aflabrests.

Ég vil svo árétta það, sem ég sagði, að gefnu tilefni frá hv. 4. þm. Reykv., að samkv. eðli málsins er ekki hægt að leggja fram lista á Alþingi, þannig að menn geti fengið svo og svo langan frest til að búa sér í haginn, áður en listinn er settur í framkvæmd. Þess vegna var hafður sá háttur á, að ríkisstj. kynnti sér, hvort réttara væri að halda þessari skipan á málunum eða breyta til.

Er ýmislegt annað í ræðu hv. þm., sem gæti gefið tilefni til langrar ræðu, en ég ætla að láta undir höfuð leggjast að ræða nú við þessa umr. Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, skildist mér, að hann hefði misskilið mín orð. Ég tók það fram í minni ræðu, að ríkisstj. hefði þurft að leita umsagnar fulltrúa frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að ganga úr skugga um, að hér væri ekki verið að brjóta lög þess sjóðs. Var okkar sjónarmið viðurkennt, og er hér ekki um að ræða brot á þeim l., heldur rétta meðferð gengis og gjaldeyris. Eins og flestum hv. þm. mun kunnugt, þá má samkv. lögum þessa sjóðs enginn meðlimur sjóðsins breyta gjaldeyri sínum, nema samþykki sjóðsstjórnar komi til. Ríkisstj. þurfti ekki að leita samþykkis Alþingis vegna þess, að þetta er gert í samræmi við íslenzk lög. Þetta er gert í fullri heimild, sbr. 11. og 12. gr. l. um fjárhagsráð. Ég hygg, að ég þurfi engu við að bæta um okkar heimild. En samkv. þessum l. er fjárhagsráði heimilt:

1) að gefa innflutning á vissum vörum frjálsan með sérstökum skilyrðum eins og á bátalistanum;

2) að ráðstafa gjaldeyri til greiðslu, sbr. 2. lið 12. gr. l.;

3) að undanþiggja vörur hámarksverði.

Er því heimildin varðandi bátalistann svo skýr og ótvíræð, að ég sé ekki neitt varðandi þessa framkvæmd, sem þarf frekari heimild til.

Hvað það snertir, hvort ríkisstj. vilji leggja þetta fyrir þing, þá er það að segja, að þessi samningur er þegar gerður. Ríkisstj. hefur gert samninginn samkv. þeirri ótvíræðu lagaheimild, sem ég benti á. — Hef ég svo ekki fleiru hér við að bæta.