04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þessi tilkynning ríkisstj. er fyrir margra hluta sakir merkileg. Hæstv. atvmrh. les frásögn af því hér á Alþ., að sér og ríkisstj. hafi þóknast að ákveða, að vissar vörur megi ekki flytja til landsins, nema þær séu keyptar fyrir vissan gjaldeyri, og að eigendur þessa gjaldeyris megi selja innflytjendum þessara vissu vara hann með mikilli álagningu á opinberu gengi. Svo sem kunnugt er, var skipulag þetta, bátagjaldeyrisskipulagið, tekið upp í fyrra að Alþ. forspurðu. Nú er það endurnýjað og aukið, en ekki endurbætt, og Alþ. sagt frá því svona rétt til málamynda! Hvað er hér á ferðinni? Mönnum getur auðvitað ekki blandazt hugur um, að tekin hefur verið með þessu upp tvenns konar skráning á íslenzku krónunni. Útflytjendur tiltekinna íslenzkra afurða fá hærra verð fyrir útflutning sinn en aðrir og hærra verð en svarar til hins opinbera gengis. Þeim er tryggt þetta háa gengi á gjaldeyri sinn með því að veita þeim einkaleyfi til innflutnings á fjölmörgum vörutegundum, sem hægt er að leggja mikið á. Og svo er allt saman kölluð „frjáls verzlun“ !! Nei, með þessu er auðvitað verið að taka upp tvöfalt gengi, það er verið að framkvæma „partiella“ gengislækkun. Gengisskráningarvaldið er lögum samkvæmt í höndum Alþ. Ríkisstj. virðist hins vegar telja, að hún hafi rétt til að taka upp tvöfalt gengi, þ. e. framkvæma ein „partiella“ gengislækkun. Þetta er skrýtin skoðun, eins og raunar fyrirkomulagið sjálft. Mér er ekki kunnugt um, að slíkt skipulag tíðkist í nágrannalöndum, ekki í Vestur-Evrópu, og í Norður-Ameríku þekkist það ekki. Í einu Evrópulandi er þó skipulag, sem er eitthvað í áttina við þetta, og er það Spánn. Auk þess er skylt skipulag þessu víða í Suður-Ameríku, en þar er gengið lengra á þessari braut. Fyrirmynd sína hefur því hæstv. ríkisstj. orðið að sækja til Spánar og Suður-Ameríku. Ríkisstj. er ekki óvön því að horfa til útlanda. Mér finnst, að hún hefði getað horft í aðra átt eftir fyrirmynd. Kjarni þessa skipulags er sá, að vissum aðilum er veitt heimild til kaupa á vissum erlendum varningi og til sölu á honum án nokkurrar takmörkunar á álagningu. Tilteknum útflytjendum eru m. ö. o. tryggðar tekjur í skjóli einokunar á innflutningi. Er hægt að hugsa sér meiri öfuguggahátt í framkvæmdum hjá stjórn, sem þykist hafa frjálsa verzlun að höfuðleiðarstjörnu? Kenningin um „frjálsa verzlun“ er framkvæmd með mestu einokun, sem um getur á síðari árum! Stórkostlegum byrðum er velt yfir á herðar almennings með þessari óbeinu gengisfellingu. Ráðstafanirnar hafa nákvæmlega sams konar áhrif og gengislækkun: Tekjur útflytjenda bátaafurðanna vaxa, en verðlag innfluttu vörunnar til neytenda hækkar.

Ég held, að ástæða sé til að minna hæstv. ríkisstj. og allan þingheim á boðskapinn, sem ríkisstj. flutti hér á Alþ., þegar gengislækkunarfrv. var lagt fram 1950. Því fylgdi merkileg álitsgerð tveggja hagfræðinga. Í þessari álitsgerð er rætt um þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið upp. En fyrrv. stjórn hafði gert nokkrar smávægilegar ráðstafanir í sömu átt varðandi hrogn og Faxasíld, en þar var um að ræða afurðir, sem vitað var að yrðu alls ekki hagnýttar án þess, að veittur yrði einhvers konar styrkur til þess. — Nú langar mig til að minna hæstv. ríkisstjórn og þingheim allan á þennan boðskap. Ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það upp, sem hagfræðingarnir sögðu um þá stefnu, sem þeir kölluðu „frjálsan“ gjaldeyri eða „gjaldeyrisfríðindi“. Þeir segja:

„Með gjaldeyrisfríðindunum er svo um hnútana búið, að útgerðarmenn fá hærra verð og hærri tekjur fyrir hrognin heldur en fyrir framleiðslu, sem er þjóðhagslega verðmeiri, þ. e. framleiðslu, sem meira er hægt að kaupa fyrir. Þjóðin borgar brúsann með hærra vöruverði.“ — Það gerir hún einmitt núna. Hér eru hagfræðingarnir nefnilega að ræða um efnislega séð hið sama og felst í bátagjaldeyrisskipulaginu. — „Það er augljóst, að því lengra sem út á þessa braut er gengið, því meiri umráð sem útgerðarmönnum eru veitt yfir gjaldeyri, sem þannig er aflað, því óhagkvæmari verður útflutningsverzlunin og því meiri kjararýrnun þjóðarinnar.“ — Þetta er öldungis rétt. — „Það, sem frjálsi gjaldeyririnn þýðir í raun og veru, er það, að erfiðleikarnir, sem hafa myndazt í skjóli haftanna, eru orðnir þannig, að kerfið er að gliðna í sundur, og er það álit okkar, að verði haldið áfram á sömu braut, þá biði á næstu árum ekki annað en upplausn þess og að atvinnulífið færist meir og meir í óskapnaðar horf.“ — Þann óskapnað höfum við nú fyrir framan okkur! — „Eftir því sem upplausnin vex, eftir því verða fleiri og fleiri hagsmunahópar, sem hafa hag af ófremdarástandinu, og því erfiðara verður að breyta því til batnaðar, því lengur sem beðið er með nauðsynlegar ráðstafanir. Til greina kemur að fara þá leið, að útgerðarmenn fái ákveðinn hluta, t. d. þriðjung eða helming gjaldeyrisins til frjálsrar ráðstöfunar.“ — Það er einmitt það, sem hæstv. ríkisstj. er nú að gera. — „Næðu svona fríðindi aðeins til bátaútvegsins, mundu fyrirkomulaginu fylgja þeir annmarkar, sem nú eru á hinum „frjálsa“ gjaldeyri og ræddir hafa verið hér að framan. Væri fyrirkomulagið hins vegar látið ná hlutfallslega jafnt til alls gjaldeyris, sem fengist fyrir útfluttar sjávarafurðir, væri það skynsamlegra en núverandi fyrirkomulag hins „frjálsa“ gjaldeyris, þar eð það hefði ekki í för með sér sams konar óhagstæð áhrif fyrir atvinnuþróunina.“ — Þessa leið fer ríkisstj. þó ekki, heldur lætur hún fríðindin einmitt ná til bátagjaldeyrisins eins, þvert ofan í tillögur hagfræðinga sinna og þrátt fyrir hrakspár þeirra, ef slíkt yrði gert. — Síðar segir: „Með því að fara þessa leið mundi raunverulega sett tvenns konar gengi á íslenzku krónuna og þá um leið tvenns konar verðlag á innfluttar vörur. Í framkvæmdinni yrði þetta sennilega þannig, að frjálsa gjaldeyrinum yrði einkum varið til að flytja inn vörur, sem ekki gætu talizt bráðnauðsynlegar, eða teldust jafnvel óþarfar, og yrði þetta gert til þess að koma í veg fyrir, að hinar óumflýjanlegu verðhækkanir kæmu fram í vísitölunni.“ Síðar segir: „Hin tvö gengi og tvenns konar verðlag innanlands mundu gera nauðsynlegt að halda mjög ströngu eftirliti með verðlagi og dreifingu allra innfluttra vara.“ Þetta hefur ríkisstj. alveg vanrækt eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið frá verðgæzlustjóra. Hæstv. ríkisstj. hefur blátt áfram hunzað þær skoðanir, sem komu fram í álitsgerð þessara hæfu hagfræðinga. — Enn segir: „Sterk öfl mundu reyna að hækka álagningu og verðlag á þeim vörum, sem fluttar væru inn fyrir ódýrari gjaldeyrinn, til samræmis við verðlag á þeim vörum, sem fluttar væru inn fyrir frjálsa gjaldeyrinn. Með því móti væri skapaður jarðvegur fyrir margs konar brask og óheilbrigða verzlunarhætti.“ — Einmitt þetta margs konar brask og óheilbrigðu verzlunarhættir blasa við þeim, sem vilja hafa augun opin fyrir því, sem er að gerast. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki viljað taka mark á þessum varnaðarorðum, heldur látið þau sem vind um eyrun þjóta. Þannig sjáum við, að sérfræðingar ríkisstj. hafa varað við þeim ráðstöfunum, sem hún hefur gert að kjarna gerða sinna.

Ég gat þess áðan, að þessi ráðstöfun væri hæpin frá lagasjónarmiði. Hæstv. atvmrh. vitnaði í 11. og 12. gr. l. um fjárhagsráð og sagði, að fjárhagsráð gæti gefið innflutning á vissum vörum frjálsan og hefði áður gefið hann frjálsan með vissum skilyrðum, eins og gert væri á bátalistanum, og hefði leyfi til að afnema verðlagseftirlit á vörum. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, hver var eiginleg undirstaða og raunverulegur tilgangur þeirra ákvæða, sem hingað til hafa gilt og eru frá því að lög voru sett fyrst um innflutningshöft og veitingu innflutningsleyfa. Nauðsynlegt var að takmarka innflutninginn í heild, og þá var auðvitað einnig nauðsynlegt að gefa út innflutningsleyfi. Var innflutningur einstakra vörutegunda að sjálfsögðu takmarkaður misjafnlega mikið. Í bátagjaldeyrisreglunum er engin heildartakmörkun á innflutningi þeirra vörutegunda, sem þær taka til. Þar eru engin skilyrði um takmörkun á innflutningi á nylonsokkum eða niðursoðnum ávöxtum eða þess háttar varningi. Það er sett í sjálfsvald innflytjenda, hvað þeir flytja mikið inn af þessum vörum. Það, sem ríkisstj. gerir, er að takmarka innflutning á bátagjaldeyrisvörum í heild, ekki vegna gjaldeyrisskorts, heldur til að tryggja útvegsmönnum álagningu á vissan gjaldeyri, m. ö. o. til að tryggja þeim annað gengi fyrir sinn útflutning en hið skráða gengi. Tilgangur þessarar reglugerðar er allt annar en eldri lagaákvæða um takmörkun á innflutningi. Áður hafði l. verið beitt til að takmarka innflutning, einkum á vissum vörutegundum. En þessum lista er beitt til að tryggja hærra gengi á gjaldeyrinum, sem fæst fyrir vissar útflutningsvörur.

Það er ekki hægt að sækja rök í gömlu innflutningstakmörkunarlögin fyrir þessu. Þeim var ætlað allt annað hlutverk. Ef þetta er löglegt, eru ákvarðanir Alþ. um skráð gengi krónunnar alger markleysa. Ef allur eða hálfur innflutningurinn er tekinn á þennan lista, er þá nokkur í vafa um, að gengi krónunnar er ekki kr. 16.32 miðað við dollar? Mér þætti gaman að sjá framan í þann embættismann, sem vildi halda því fram, að gengi krónunnar væri 16.32 miðað við dollar, ef helmingur eða 3/4 hlutar innflutningsins væru á bátagjaldeyrislistanum. Það á ekki að þurfa að rökræða þetta á samkundu eins og þessari, svo augljóst er það. Það, sem hér er að gerast, er, að ríkisstj. tekur í sínar hendur hluta af gengisskráningarvaldinu. Það er þetta, sem Alþfl. vill ekki láta óátalið, og það verður að leggja þetta mál fyrir Alþ. til samþykktar eða synjunar. Lagasetning um þessi atriði er nauðsynleg og sjálfsögð, hvort sem litið er á lagalega hlið málsins eða þingræðislega hlið þess. Þá yrði og hægt að koma á framfæri tillögum til breytinga á kerfinu.

Þær breyt., sem ég tel nauðsynlegast að gera, eru tvenns konar. Annars vegar þarf að tryggja hlut sjómanna betur en gert hefur verið, því að þeir hafa verið hlunnfarnir á síðasta ári. Hins vegar að koma í veg fyrir, að innflytjendur misnoti sér þetta kerfi, eins og átt hefur sér stað.

Útgerðarmenn hafa bent mér á, að fiskkaupmenn hafi hagnazt óeðlilega á þessu skipulagi, eins og það var framkvæmt á s. l. ári. Fiskverðið var 75 aurar, áður en þetta kerfi var tekið upp, og fyrir eitt tonn fengust því 750 kr. Núverandi fiskverð er 1.05 eða 1.06 kr., og fyrir sama magn fæst því 306 kr. meira vegna verðhækkunarinnar á fiskinum. (GJ: Þetta eru röng hlutföll.) Það má deila um þetta, en þetta er dæmið, sem útgerðarmaðurinn skýrði mér frá, og fullyrti hann, að þetta væru þær tölur, sem um væri að ræða. Þó að mér sé ljóst, að það megi deila um þetta, er engu að síður rétt að halda áfram með dæmið og sjá, hvers við verðum vísari. Ef við tökum 40 punda sölu, þá gefur hún 20–40 kr. Á helming þessa leggst bátagjaldeyrir. 50% álagning á 1020 kr. gerir 510 kr. Bátaálagningin skilaði 510 kr. Útvegsmaðurinn fékk aðeins 306 kr. hækkun, en fiskkaupmenn fengu 200 kr. í sinn vasa af þessu. Við þetta bætist svo, að sjómönnum hefur verið reiknað kr. 0.96 á hvert kg, en ekki kr. 1.05. Sést bezt af þessu, hvílík fjarstæða þetta fyrirkomulag er. Sjómaðurinn hefur verið beittur svívirðilegri rangsleitni, sem ég efast um, að eigi stoð í lögum. Hlutur hans hefur verið miðaður við annað verð en útgerðarmaðurinn fær. Við þetta bætist svo, hvað sem má deila um einstök minni háttar atriði, að það er langt frá því, að útvegsmenn fái allan hagnað af þessum bátagjaldeyri. Af hagnaðinum rennur verulegur hluti til milliliða, hraðfrystihúsanna og saltfisksútflytjenda. Þegar varan, sem keypt er fyrir fiskinn, kemur svo til landsins og búið er að svíkja útvegsmenn og sjómenn, þá koma heildsalarnir og taka til sín annað eins. Það má með sanni segja, að þetta skipulag sé kjarninn í stefnu ríkisstj. í viðskiptamálum. Það þarf að koma í veg fyrir, að níðzt sé á sjómönnum, og tryggja rétt þeirra, það þarf að rétta hlut útvegsmanna gagnvart frystihúsunum og fiskkaupmönnunum. Og það verður að gera ráðstafanir til þess, að innflytjendur hagnist ekki eins gífurlega og þeir hafa gert á síðasta ári og skýrsla verðgæzlustjóra sýnir. Ég vil minna á, hvað hún sýndi um innflutninginn í október og nóvember, löngu eftir að þetta fyrirkomulag var tekið upp og þegar allt átti að vera komið í eðlilegt horf. Hún sýnir, að einstaka menn geta hagnazt óeðlilega mikið á þessu fyrirkomulagi. Nú eru allar vörurnar komnar á markaðinn, og hið marglofaða jafnvægi ætti að vera komið á, en samt er kerfið óspart notað til okurs. Athuganir sýndu, að innkaupsverð 60 vörutegunda var 2.3 millj. kr., en söluverðið 7.5 millj. Álagningin er 2.2 millj., eða eins mikil og nettókaupverð á vörunni erlendis. Álagningarhækkun þeirra, sem að innflutningnum stóðu, var tæp 1 millj. kr. af innflutningi, sem var í gjaldeyri um 2 millj. kr., en útvegsmenn fengu 941 þús. kr. Þeir fengu minna en innflytjendurnir fengu í álagningu fyrir að innheimta þessar 941 þús. kr. og skila útgerðarmönnum þeim. Þeir taka 1 millj. kr. í viðbót í innheimtulaun fyrir að skila þessum 941 þús. kr. Þetta er svo fráleitt, að ég skil ekkert í ríkisstj., að hún skuli dirfast að leggja til áframhald þessa kerfis, án þess að gera ráðstafanir til þess, að slíkt endurtaki sig ekki. Hæstv. atvmrh. hefur haldið því fram, að frjáls samkeppni, sem í orði hefur marga kosti, eigi að leysa þennan vanda. Til þess að frjáls samkeppni geti gert það gagn, sem henni er ætlað, þarf verzlun og innflutningur að vera frjáls og fjárhagskerfið innanlands sömuleiðis. Hér er hvorugt fyrir hendi. Innflutningurinn er ekki frjáls á þessum bátagjaldeyrisvörum. Hann er takmarkaður við bátagjaldeyrinn. Það er ekki hægt að flytja þessar vörur inn nema fyrir útvegsmannagjaldeyri. Aðrir geta ekki keppt um innflutning á þessum sviðum. Hér er því um einokun að ræða. Hitt skilyrðið er ekki heldur fyrir hendi. Sá tilgangur gengislækkunarinnar að ná jafnvægi í efnahagskerfinu hefur ekki náðst. Það nær því engri átt að treysta á frjálsa samkeppni. Hún getur ekki gert það gagn, sem henni er ætlað, vegna þess að forsendurnar eru ekki fyrir hendi. Það er því ekkert annað að gera en að taka upp verðlagseftirlit með þessum vörum, sem mundi verða þjóðinni margfalt ódýrara en að treysta á frjálsa samkeppni. Ég sá einhvers staðar í skýrslu frá einhverjum hæstv. ráðh., að útvegsmenn mundu fá 50–60 millj. kr. fyrir bátagjaldeyrinn árið 1951. Ef miðað er við skýrslu verðgæzlustjóra, taka heildsalarnir annað eins. Sömu upphæð og bátaútvegsmaðurinn fær var hægt að láta hann fá án nokkurrar nýrrar álagningar.

Niðurstaðan af þessum orðum er sú, að með þessu móti er verið að stofna til nýrrar gengislækkunar í landinu. Og þetta er kjarninn í stefnu ríkisstj. Ef hún kemst upp með þetta, verður gengisskráningin í rauninni nafnið eitt og aðeins formsatriði fyrir Alþ. samþ. breyt. á gengisskráningarl. og færa gengið á pappírinn.

Ég tel nauðsynlegt, að allir geri sér í fyrsta lagi grein fyrir því, að kjarninn í þessum ráðstöfunum ríkisstj. er, að stefnt er að nýrri gengislækkun. Í öðru lagi er nauðsynlegt að setja lög um þetta mál, því að tvísýnt er, að þessi reglugerð eigi stoð í lögum. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að gera breyt. á kerfinu til að leiðrétta hlut sjómanna. Í fjórða lagi er svo nauðsynlegt að stöðva verzlunarokrið, sem framkvæmt hefur verið í skjóli þessa kerfis.