04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta. Ég fæ tækifæri til þess síðar.

Ég ætla að bera fram spurningu til hæstv. atvmrh. vegna þess, að þegar þetta kerfi var tekið upp í fyrra, lýsti hann því yfir, að þetta væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun, sem ekki ætti að framlengja. Hvað hyggst ríkisstj. fyrir um þetta í framtíðinni?

Er almenningur kominn inn á þá braut að hafa þetta kerfi fast, og hefur verið rætt um, hvað tæki við um næstu áramót? Ég býst við, að hæstv. ríkisstj. geri sér ljóst, að sú breyt., sem verður á þessu ári, geri það að verkum, að hægt verði að láta vera að gera ráðstafanir til þess að styrkja bátaútveginn um næstu áramót. Sennilega hefur þetta borið á góma í viðræðum, sem framleiðendur bátagjaldeyrisins áttu við fulltrúa úr gjaldeyrissjóði. Ef svo er, þá vaknar sú spurning: Hvað hefur helzt komið fram í þessu efni?