04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (3670)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði um lögmæti þessara ráðstafana. Ég hef aðeins fengið eitt svar við spurningum mínum. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri skv. 11. og 12. gr. Ég býst við, að það sé skv. 11. gr., að innflutningur er gefinn frjáls á þessum vörum. En skv. þessari gr. er ekki hægt að setja skilyrði fyrir innflutningi, heldur aðeins hægt að gefa frjálsan innflutning. Með þessu eru bátainnflutningsvörurnar ekki frjáls innflutningur, þær eru skilorðsbundin einokun, þó að þetta sé kallaður frílisti.

Þá sagði hæstv. ráðh., að skv. 12. gr. mætti setja skilyrði. Það er einvörðungu í þessari grein, sem talað er um að setja nokkur skilyrði, og það eru eingöngu þessi skilyrði, sem hæstv. ráðh. vísaði til. Við skulum athuga, hvernig er háttað með þessi skilyrði. — Í fyrsta lagi er ekki hægt að úthluta þessum leyfum til annarra en innflytjenda; það stendur greinilega. Og það er þá engum öðrum hægt að setja skilyrði en innflytjendum. M. ö. o., það er ekki hægt að úthluta þessum leyfum til annarra en sérstakra innflytjenda. Hvað gerir svo ríkisstj.? Hún úthlutar engu af þessum leyfum til innflytjenda, heldur aðeins til útflytjenda, ekki með það fyrir augum, að þeir kaupi aðeins það ódýrasta, heldur með það fyrir augum, að þeir leggi 60% á þetta. Strax í byrjun auglýsingarinnar er byrjað að þverbrjóta lögin. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera þetta ljóst, en hún fæst ekki til að vitna í þessa gr. og lesa hana upp fyrir hv. Alþ. Þetta er eina gr., sem hægt er að setja skilyrði eftir. Ég býst ekki við, að nokkur treystist til að neita þessu. Það er ómögulegt að ætla sér að teygja þessa gr. svona út. Hvað ætlast svo hæstv. ríkisstj. fyrir með þessu? Ef ríkisstj. hefur rétt til að fara svona með vefnaðarvörur, þá getur hún farið svona með allar vörur, líka matvörur. Þá er hægt að leggja 70%, 100% eða 1000% á alla matvöru. Ég held, að jafnvel hæstv. ríkisstj. hljóti að sjá, að hér er um hreint lögbrot að ræða, og ef þeir telja sig hafa lagaheimild til þess að gera þetta, þá telja þeir sig alveg eins hafa lagaheimild til þess að leggja þetta á alla matvöru. Hér er því ekkert annað en lögbrot, hreint lögbrot, sem um er að ræða.