04.01.1952
Sameinað þing: 29. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

Innflutningsréttindi bátaútvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. sagði, að hann teldi ekki innflutning frjálsan, nema hver sem væri mætti flytja inn vörur á opinberu gengi. Um þetta fjallar langur kafli í ræðu hans. Hann segist telja, að bátagjaldeyririnn sé ekki frjáls, því að þar sé um óeðlilega álagningu að ræða. Milli okkar hv. þm. er djúptækur skoðanamunur. Ég held, að þessar aðgerðir hafi nú samt sem áður verið það bezta, einmitt meðan hægt er að fullnægja þörf þjóðarinnar fyrir vörukaup. Ég er ekki dómbær um það, en vil gera tilraun til að afla mér frekari vitneskju um það, hver endanleg afkoma á útfluttum fiski verður á þessu ári, en ég vona, að hún verði betri 1951 en 1950, þó að við höfum fengið heimild 1950 til að selja í clearing-viðskiptum, sem gáfu allgóðan hagnað og vonir um glæsilega sölu. — Ég vil aðeins segja það, að ég tel ekki, að nein þjóð þurfi né muni líta svo á, að við höfum breytt genginu. Og ég vona, að engin ástæða sé til að óttast hrakspár hv. þm. um, að þetta sé leiðin til gengislækkunar.