03.01.1952
Sameinað þing: 28. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

Minning látinna manna

forseti (JPálm):

Á næstsíðasta degi ársins, sem liðið er, hinn 30. des., andaðist að heimili sínu hér í bænum Finnur Jónsson alþingismaður og fyrrv. ráðherra eftir nærri 4 mánaða þunga legu í sjúkrahúsi, 57 ára að aldri. Tvívegis var gerður á honum uppskurður, en sjúkleikinn var þess eðlis og hafði grafið svo um sig, að ekki varð bót á ráðin.

Finnur Jónsson fæddist á Harðbak á Sléttu 28. sept. 1894, sonur Jóns bónda þar og síðar bónda og verkamanns á Akureyri, Friðfinnssonar bónda á Barði á Akureyri, og konu hans Þuríðar Sigurðardóttur bónda í Miðkoti í Svarfaðardal Jónssonar. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri 1910 og gerðist sama ár póstþjónn á Akureyri. Því starfi gegndi hann til 1918, en verzlunarstörfum í sama bæ næstu tvö árin, 1919–1920. Þá var hann skipaður póstmeistari á Ísafirði og hafði það embætti á hendi til 1932. Þegar á þeim árum lét hann mjög til sín taka í stjórnmálum, atvinnu- og félagsmálum, var kosinn í bæjarstjórn 1921 og átti þar sæti í yfir 20 ár, hafði forgöngu um stofnun Samvinnufélags Ísfirðinga, sem rekur bátaútgerð, og var framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi, 1928, og þar til hann varð ráðherra, 1944. Ísfirðingar kusu hann á þing 1933, og átti hann þar sæti til dauðadags, sat alls á 24 þingum. Þar var hann þegar og æ síðan ötull málsvari þeirrar stéttar, sem hann var runninn úr, og bar jafnan einkum fyrir brjósti hag sjómanna og verkamanna. Vegna margháttaðrar reynslu og þekkingar í viðskiptamálum og ekki sízt sjávarútvegsmálum varð hann sjálfkjörinn fulltrúi flokks síns til ýmissa vandasamra og ábyrgðarmikilla trúnaðarstarfa á þessu sviði. Hann var formaður síldarútvegsnefndar í 7 ár og í stjórn síldarverksmiðja ríkisins frá öndverðu, 1936, til 4946. Hann var og um langt árabil formaður sjútvn. neðri deildar Alþingis, sat um skeið í fjárhagsráði, og í útflutningsnefnd ríkisins var hann skipaður 1939. Einnig átti hann sæti í millibankanefnd. Hann var félags- og dómsmálaráðherra í 2. ráðuneyti Ólafs Thors frá 21. okt. 1944 til 4. febr. 1947. Hin síðustu ár, frá því á öndverðu ári 1949, var hann forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins. Oft átti hann sæti í samninganefndum um viðskipti við erlend ríki, og þegar Íslendingar áttu fyrst fulltrúa á þingi sameinuðu þjóðanna, var hann einn meðal þeirra. Á Ísafjarðarárum sínum var hann ritstjóri Skutuls 1931–1935. Hann átti um langt skeið sæti í stjórn Alþýðusambands Íslands og í stjórnum verkalýðsfélaga.

Það má öllum vera minnisstætt, sem þekktu Finn Jónsson, að hann var maður mjög einarður, fylginn sér og oft hvassyrtur, en þó rökvís í málafylgju og glöggsýnn á kjarna hvers máls. Með skapfestu sinni, eljusemi og harðfylgi, samfara góðum gáfum, hófst hann af sjálfum sér til staðgóðrar menntunar og til forustu í þjóðmálum. Jafnótrauður tók hann að lokum hinum þungbæra sjúkdómi sínum, fylgdist með þjóðmálum og tíðindum öllum fram til hins síðasta og lét sem ekki væri, þó að honum hlyti að vera ljóst, að hverju fór.

Þjóð og þingi má vera það harmsefni, að Finnur Jónsson er fallinn frá fyrir aldur fram. Vér skulum, samþingismenn hans, votta honum virðingu og ástvinum hans samhryggð með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Daginn eftir að hlé var gert á fundum Alþingis, eða 21. des., andaðist hér í bænum í hárri elli Jóhann Eyjólfsson fyrrum alþingismaður, nærri níræður að aldri.

Jóhann Eyjólfsson fæddist í Sveinatungu í Norðurárdal í Mýrasýslu 13. jan. 1862 og var lengst af kenndur við þann bæ, enda rak hann þar síðar búskap um langt skeið. Foreldrar hans voru Eyjólfur bóndi í Sveinatungu, síðar í Hvammi í Hvítársíðu, Jóhannesson Lunds bónda og smiðs í Gullbringum Jónssonar, og kona hans Helga Guðmundsdóttir bónda á Sámsstöðum Guðmundssonar.

Jóhann naut ekki skólagöngu í æsku, en menntaðist að mestu af sjálfsdáðum og gerðist snemma námfús og bókhneigður, enda var hann vel viti borinn og skáldmæltur sem faðir hans. Hann ólst upp í föðurgarði og var þegar á ungum aldri hinn mesti dugnaðarforkur til allra verka, bæði í búi foreldra sinna og við sjóróðra, sem hann stundaði á vertíðum. 27 ára að aldri keypti hann jörðina Sveinatungu og reisti þar bú, hóf þar mikið ræktunarstarf og aðrar umbætur, að ógleymdri húsagerð. Íbúðarhús mikið úr steinsteypu reisti hann þar árið 1895, hið fyrsta af þeirri gerð hér á landi, við hinar verstu aðstæður um alla flutninga og án annarrar reynslu en þeirrar, er hann hafði af afspurn. Þótti það mikið íræði og mun brautryðjendastarfs hans í þessu efni verða lengi minnzt. Í Sveinatungu bjó Jóhann í 26 ár, til 1915, en þá keypti hann jörðina Brautarholt í Kjalarnesi, fluttist þangað búferlum og bjó þar í 8 ár, til 1923, en þá fluttist hann til Reykjavíkur, rak þar um skeið fornsölu, en stundaði hin síðari ár bókband í heimahúsum, en þá handiðn hafði hann numið á æskuárum. Á Alþingi átti Jóhann sæti á tveim þingum, 1914 og 1915, var þingmaður Mýramanna. Þar beitti hann sér meðal annars fyrir því, að ævaforn löggjöf allt frá dögum Gissurar biskups Ísleifssonar, um fátækratíund af fasteign og lausafé, yrði úr lögum numin, og fékk því framgengt, sýndi fram á, að réttlátara væri að jafna því, er sveitarsjóðir misstu í við þá breytingu, niður á hreppsbúa eftir efnum og ástæðum. Fjölmörgum trúnaðarstörfum gegndi Jóhann og í héraði, var m. a. um langt skeið hreppsnefndaroddviti og sýslunefndarmaður.

Jóhann Eyjólfsson brauzt í mörgu um ævina, enda var hann stórhuga framfaramaður og hamhleypa að hverju sem hann gekk, fjörugur í hugsun og starfi, hreinskilinn og hreinskiptinn, góður heim að sækja og vinsæll. Með honum er til moldar genginn einn hinna umsvifamestu manna í bændastétt vorri.

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessa merkismanns virðingu sína með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]