12.10.1951
Neðri deild: 10. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég hef skrifað fyrirvaralaust undir nál. og fylgi frv. án nokkurrar till. um breytingu.

Það er skýrt í þessu frv., að það lán, sem ríkissjóður tekur, er endurlánað verksmiðjunni og er skuld verksmiðjunnar. Hitt er annað, sem hv. frsm. gat um, að í sjálfum l. um áburðarverksmiðju er kannske ógreinilegt, hvernig rekstri og eignarrétti verksmiðjunnar skuli háttað. Þetta var allt greinilegt í frv. um verksmiðjuna, sem vera skyldi sjálfseignarstofnun á vegum ríkisins. En þegar svo kom á síðustu stundu brtt. um hlutafélagsrekstur og hún samþ., þá ruglaðist frv. Þarna getur verið um vafa að ræða, sem dómstólar þyrftu að skera úr á sínum tíma. Nú er óheppilegt, að Alþingi setji lög eða láti lög standa, sem fela í sér slíkt vafaatriði sem geti orðið dómstólamál, og tel ég því eins og hv. frsm., að þetta beri að athuga nánar í n. eða af hæstv. ríkisstjórn, eða hvorum tveggja. En eins og ég sagði, er þetta annað mál en það, sem fyrir liggur, þó svo skylt, að ég taldi rétt að taka þetta fram í sambandi við málið.