06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

6. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að fylgja þessu frv. úr hlaði með nokkrum orðum. Það er komið frá hv. Nd. í því formi sem það er nú. Upphaflega var það lagt fyrir Nd. til staðfestingar á bráðabirgðal. frá síðastliðnu vori, en í þeim var fólgið, að nauðsynlegt væri vegna hins hörmulega atvinnuástands á Siglufirði, að ríkisstj. aðstoðaði Siglufjörð til að ná í togara, sem þá væri hægt að fá keyptan, einn af hinum eldri togurum, en ríkisstj. hafði ekki heimild frá Alþingi til þessa, og voru þá sett um það bráðabirgðal. Þessi togari, Garðar Þorsteinsson, hefur gengið frá Siglufirði síðan. Inn í mál þetta hefur svo verið bætt nýjum ákvæðum í Nd., og er það í sambandi við heimild, sem ríkisstj. fékk frá síðasta þingi, 2 millj. kr. til að ábyrgjast lán handa þeim félögum, sem keyptu gömlu togarana og vildu kosta til að setja í þá olíukyndingu, ef það að dómi sérfróðra manna væri talið líklegt til árangurs. Nú er orðin mikil breyting á útgerðarmálum, og stendur hún í sambandi við aflabrest þann, sem svo mjög hefur gert vart við sig á undanförnum árum, þannig að vélbátar hafa ekki fengið bein úr sjó. Þannig hefur það verið í mörgum verstöðvum á Norður- og Vesturlandi. Var þetta því eingöngu komið fram af hálfu ríkisstj. sem bjargarráðstöfun, ef togararnir gætu komið í stað vélbátanna. Nú gekk ríkisstj. einnig frá kaupum á tveim öðrum togurum, öðrum fyrir Höfðakaupstað, en hinum fyrir Þingeyri. Upphæð sú, sem ríkisstj. hafði til umráða, dugði ekki fyrir báðum togurunum, og voru þá notuð gömul l. um ábyrgðarheimild frá árunum 1944–46 vegna nýbygginga í Höfðakaupstað, og var hún notuð. Á þennan hátt var togarinn fenginn, og er hann nú í sinni fyrstu veiðiferð, og ætti þá að fást úr því skorið, hvort þetta sé líklegt til frambúðar eða ekki. Þingeyrartogarinn mun verða tilbúinn nú fyrir áramótin. Auk þess hefur ríkisstj. samþ. kaup á togara, er Gyllir heitir, fyrir félag á Flateyri, en eftir er að kaupa í hann olíukyndingartæki. Nú fellur þessi gamla heimild, sem notuð var vegna Höfðakaupstaðartogarans, úr l. um áramótin. En þessi 61/2 millj. er vegna þess, að ríkisstj. fer þess á leit við Alþingi, að það veiti heimild til þess að hún geti ábyrgzt kaup á einum togara í viðbót við hina 3 til þess að hafa til ráðstöfunar.

Önnur breyt. frá l. er sú, að lagt er til, að ábyrgðin hækki úr 75% í 90% af kaupverði togaranna. Þetta er gert vegna þess, að það hefur sýnt sig, að staðir þeir, sem taka togarana, hafa ekki ráð á að taka þá með þessum skilmálum. Þess vegna er lagt til, að þetta hækki úr 75% í 90%.

Þetta er efni þessa frv., sem nú er lagt fyrir hv. deild. Ég skal geta þess, að ég get lýs því yfir fyrir hönd ríkisstj., að hún hafðist ekkert að í þessu máli fyrr en hún hafði leitað álits sérfróðra manna um, hvort þetta mundi vera skynsamlegt eða ekki. Ríkisstj. fól tveim sérfróðum mönnum að athuga þetta, þeim Ólafi Sveinssyni skipaskoðunarstjóra og Viggó Jessen. Ég veit, að það eru ekki allir sammála um það, hvort hér sé rétt stefnt eða ekki, og ætla ég mér ekki þá dul að dæma um það. En það, sem vakað hefur fyrir ríkisstj., er eingöngu það að reyna að bæta úr hinu alvarlega ástandi í efnahags- og atvinnumálum, og þar sem um svo gömul skip var hér að ræða, þá lá ekki annað fyrir þeim en verða seld sem brotajárn úr landi, og þar sem viðgerð fór hér fram, þá fór ekki í þetta svo mikill gjaldeyrir, að okkur fyndist ekki rétt að gera þessa tilraun, ef hún mætti verða til einhverra úrbóta. En ríkisstj. lítur þannig á, að með þessum þrem togurum hljóti að fást nægileg reynsla um það, hvort rétt sé að halda áfram á sömu braut eða ekki.

Ríkisstj. lagði sem sé í þessa áhættu eingöngu vegna hins alvarlega ástands í þessum málum, ef togararnir gætu komið í stað vélbátanna, en þeir standa auðvitað betur að vígi en vélbátarnir, þar sem þeir geta sótt lengra á miðin. Sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessi umræðu verði frv. vísað til 2. umræðu og fjhn.