18.01.1952
Efri deild: 63. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

21. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hér hefur komið fram, að æskilegast væri, að farið væri eftir vissum meginreglum varðandi veitingu ríkisborgararéttar, og þau frv., sem ég hef lagt fram um þetta, hafa hvílt á þeirri hugsun að halda mjög í þennan rétt, en láta hann ná til þess fólks, sem raunverulega eru Íslendingar, eins og n. tekur núna upp konu, sem um nokkurra mánaða skeið fluttist úr landi og missir ríkisborgararéttinn og er svo komin hingað aftur. Það er meiningarlaust að láta þessa konu bíða mörg ár eftir því að fá fullan borgararétt aftur, og í þessu tilfelli er eðlilegt og sjálfsagt að breyta út af reglunni. Ég er ekki að hafa á móti því sem meginreglu, að menn verði að dveljast hér á landi t.d. í 10 ár, en í þessu tilfelli horfir málið öðruvísi við. Það getur líka staðið þannig á, að menn séu svo gersamlega tengdir íslenzku lífi, að ljóst sé, að þeir séu orðnir Íslendingar, þó að þeir séu ekki búnir að vera þennan tíma, svo að ég held, að menn greini talsvert minna á í þessum efnum en lítur út fyrir.

Varðandi spurningu hv. 6. landsk. um nafnabreytingar, þá er það auðvitað atriði, sem kemur til athugunar, og liggur sennilega næst að ég svari því, þar sem framkvæmd l. mundi koma undir mig. Ég geri ráð fyrir, að ég mundi ekki krefjast nýrrar skírnar, og skilst mér, að það sé alveg ljóst, en þá mundi sennilega eðlilegast að láta þá sækja til ráðuneytisins um nafnabreytingu, og yrði þá sennilega látið vera það form að kalla það forsetaúrskurð eða forsetaleyfi með hlíðsjón af lögunum.