23.11.1951
Efri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

109. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna ræðu hæstv. ráðh. Hann sagði, að komið hefðu fram áskoranir frá 89 prestum um að samþ. þetta frv., og hafði það sem afsökun fyrir því að hlusta ekki á kröfur síðasta kirkjuþings. Nú álít ég og hef bent á það áður, að það, sem ber að fara eftir í þessum málum, er einmitt þær skoðanir, sem koma fram á kirkjuþingum, því að þótt 89 prestar af 101 hafi sent þessa áskorun, þá er þar aðeins um stéttina að ræða, en á kirkjuþingum er það auk prestanna fólkið sjálft, sem lætur skoðun sína í ljós.

Ég vil benda á, að svo mjög hefur hv. 1. þm. N–M. hopað úr sínu virki, að nú vill hann vera með mér í baráttunni fyrir því, að prestum verði ekki fækkað, gegn því einu, að því sé komið á, að þeir geri skyldu sína. Hann hefur ráðizt stórkostlega á kirkjumálastjórnina og prestastéttina með svo miklum stóryrðum, að ég tel sjálfsagt, að ráðh. verði að láta athuga, hvort þessi embætti hafa verið vanrækt á þann hátt, sem þm. gat um og hann taldi vera aðalástæðuna fyrir því, að hann vildi láta fækka prestum.