04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. N. hefur tekið þetta mál á ný til athugunar og hefur orðið ásátt um að breyta einu atriði hér, þ.e., að þar, sem gert er ráð fyrir, að styrkþegi, sem um getur í c-lið 1. gr., skuli hafa reist nauðsynlegar byggingar á landinu ekki síðar en 8 árum eftir að ræktunarstyrkurinn var fyrst greiddur, þá komi í stað þess: 5 árum, — þannig að þetta tímatakmark verði lækkað. — Auk þess liggja hér fyrir brtt. frá hv. 5. landsk. þm., þar sem hann leggur til, að lagt sé allmiklu meira fé til byggingarsjóðs og sömuleiðis til landnámssjóðs en nú er lögum samkvæmt. Meiri hl. n. viðurkennir, að full þörf er fyrir aukið fjármagn til landnáms í sveitum á næstu árum. En þar sem hæstv. ríkisstj. hefur ekki lokið athugun á þessu og öðrum skyldum málum og þar sem afgreiðsla þess, sem er í þessari brtt., er ekki að áliti þeirra manna, sem þar bezt um vita, talin mjög aðkallandi sem stendur, þá getur n. ekki lagt með þessum brtt. — Ég bið afsökunar á því, að ég tók ekki eftir, að hv. 5. landsk. þm. var staddur hér á fundi. Ég hefði ekki rætt um brtt. hans nú, ef ég hefði tekið eftir því.