17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

96. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er á ferðinni, er gamall kunningi hér á Alþ. Það hefur náð samþykki Nd. og er komið þaðan til þessarar hv. d. Menntmn. hefur haft það til athugunar og meðferðar. Það kom fljótt í ljós í n., þegar rætt var um málið, að hv. nefndarmenn voru ekki sammála um afgreiðslu þess. Tveir nefndarmanna vildu samþ. frv., en þrír voru því andvígir. Það var samþ. í n. að senda málið nokkrum aðilum til umsagnar. Það var sent menntaskólunum á Akureyri og í Reykjavík, fræðslumálastjóra, stjórn Landssambands framhaldsskólakennara og Ármanni Halldórssyni, fræðslufulltrúa gagnfræðastigsins. Þessir aðilar sendu allir svör. Menntaskólarnir báðir mæltu með því að samþ. frv., en allir hinir mæltu gegn því. Það er að athuga, að þegar það lá fyrir n., var það breytt frá því, sem það var upphaflega flutt í Nd. Við 3. umr. var því breytt þannig, að það var breyt. við menntaskólalögin, þannig að ráðh. gæti heimilað, að við menntaskólana starfaði óskipt miðskóladeild. Þannig var það sent þeim aðilum, sem ég nefndi, til umsagnar.

Að lokum fór svo í n., að samkomulag náðist milli fjögurra nefndarmanna um að leggja til, að frv. væri samþ. með þessum breyt., þó þannig, að tveir menn úr n. töldu sig óbundna um að greiða öðrum brtt. atkv., hvort heldur þær kæmu beint frá minni hl. eða öðrum hv. dm. Sú breyt., sem n. gerði samþykkt um, var, að þetta yrði ákvæði til bráðabirgða, og tímabilið var ákveðið til vors 1954. Þetta kostar, að málið þarf að fara aftur til Nd., og ef þingið á aðeins eftir að standa í nokkra daga, er frv. stefnt í hættu með þessari afgreiðslu, en þeir, sem vildu samþ. frv., álitu betra að ná þessu samkomulagi en ekki, og þess vegna er þessi brtt. borin fram. Nú er komin fram till. frá minni hl. n. um að vísa málinu til hæstv. ríkisstj., en það hefur vitanlega í för með sér, ef hún verður samþ., að málið verður stöðvað. En nú hefur það verið svo, að menntaskólinn á Akureyri hefur starfrækt þessa deild síðastliðið ár, enda þótt málið væri stöðvað í þessari hv. d. í fyrra. Hún hefur að vísu starfað undir öðru nafni eða sem námsflokkar. Nú, ef þessi brtt. verður samþ., verður afleiðingin sú, að þessir námsflokkar starfa áfram við skólann á Akureyri eða þá að þessi deild verði látin hætta og kennurum verði sagt upp. Ef væntanlegri milliþn. kynni að virðast, að deildin ætti að starfa, liggur nærri að samþ. brtt. meiri hl., svo að það þurfi ekki að hreyfa við þessu þangað til sú n. hefur skilað nál. — Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, þetta er svo kunnugt mál frá síðasta þingi. Með nál. meiri hl. er prentað álit þessara aðila, sem leitað var álits hjá. Menntaskólarnir leggja til að samþ. frv. óbreytt, en aðrir aðilar mæltu á móti því, en nú horfir öðruvísi við með lagabreyt., og geri ég ekki ráð fyrir öðru en að þeir séu með henni. Eins og ég sagði áðan, tel ég ekki þörf að ræða þetta meira fyrir hönd meiri hlutans. — Það fer að líða á fundartímann, og ætla ég því ekki að hafa þessi orð fleiri.