09.01.1952
Sameinað þing: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (3746)

103. mál, ræðuritun á Alþingi

Jóhann Hafstein:

Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, hefur hann ásamt öðrum þm. flutt till. um það á undanförnum þingum, að þingræður væru teknar upp á vélrænan hátt. Nú er þessi till., sem hér liggur fyrir, fólgin í því að hafa aðeins æfða hraðritara við þingskriftirnar. — Ég hef sjálfur nokkrum sinnum flutt till. þess efnis, að stefnt verði að því að koma á betri upptöku á ræðum alþm., bæði í formi brtt. og á annan hátt, og ég er þeirrar skoðunar, að þetta hljóti að vera það, sem koma skal og hefði átt að vera búið að koma hér á Alþ.

Hv. þm. A-Húnv. sagði í ræðu sinni áðan, að hér hefðu unnið góðir og öruggir hraðritarar. Ég er hv. þm. ekki fyllilega sammála í þessu atriði, því að af þeirri reynslu, sem ég hef haft í þessu máli, þá vil ég algerlega frábiðja mig því að standa reikningsskil á mínum ræðum eins og þingritarar hafa látið þær frá sér, hvort sem hraðritari eða langhandarritari hefur átt í hlut, og mér fyndist ekki nema viðeigandi, að þingmenn gæfu allir yfirlýsingu um það, að ekkert væri að marka það, sem í þingtíðindunum stæði. Ég hef oft lesið ræður mínar, sem hraðritari hefur tekið upp, og eru þær fráleitt góðar. Það geta að sjálfsögðu komið fyrir þau mál, sem hraðritari tekur vel upp, en hins vegar kemur það engu að síður oft fyrir, að upptaka hinna beztu hraðritara er alveg óviðunandi. Ég skal svo engan dóm kveða upp um það, hvort um framför eða afturför hefur verið að ræða í frágangi þessa starfs. Það er hins vegar augljóst, að eftir því sem þingin hafa orðið lengri og þingmenn meira bundnir við ýmis önnur störf milli þess að þeir gegna sínu starfi á þingi, þá hefur minnkað mikið, að þingmenn læsu yfir ræður sínar, og það mun enn fara í vöxt, að þeir leiða það hjá sér. Ég segi fyrir mig, að ég hef gefizt upp á því, vegna þess að mér hefur fundizt meira verk oft og tíðum að umsemja eða leiðrétta ræðu eftir þingritara en að undirbúa sig undir að flytja hana. Ég held hins vegar varðandi stálþráðinn og plastþráðinn, að þar hafi menn verið á rangri braut, því að það mun ekki ætlunin, að upptaka af þessum þráðum verði framkvæmd af vélriturum, heldur yrði að nota önnur tæki eða ráð fyrst sem millistig eða þá láta þræðina ganga aftur á bak og áfram í sífellu, sem gæti kannske orðið nokkuð erfitt. Mér finnst eðlilegast, að notaður yrði diktafónn, sem tæki ræðurnar niður á spólur, sem eru miðaðar við það, að af þeim sé hægt að vélrita ræðurnar. Og mín skoðun er sú, að ef þessi aðferð yrði höfð, ættu allar ræður, sem fluttar væru t. d. á milli kl. 1 og 4 á daginn, þ. e. ef fundir stæðu ekki langt fram á kvöld, að geta legið fyrir vélritaðar og orðréttar næsta morgun. Og það er áreiðanlega minni vandi að fá góða menn í að vélrita slíkar ræður upp heldur en að auka og bæta starfskraftana með hraðriturum. — Ég skal ekkert um það segja, því að mér er ekki kunnugt um það, hvort vélahraðritun er betri eða öruggari en önnur hraðritun, en um það ætti að vera til einhver reynsla hér, þar sem hún hefur verið reynd hér á þinginu. En enda þótt svo væri, að vélahraðritun væri betri en venjuleg hraðritun, þá ætti hún aldrei að geta verið betri né fullkomnari en upptaka með diktafóni, þar sem hvert orð væri tekið upp eins og það er sagt og síðan vélritað eftir því tæki.

Varðandi fyrirkomulag þessarar aðferðar er það að segja, að sá, sem talaði, þyrfti að tala í mikrófón, hvort sem það yrði þá haft þannig, að aðeins einum mikrófón yrði komið fyrir og þingmenn færu allir á einn og sama stað til að flytja sínar ræður, t. d. ef þeir töluðu lengur en í fimm mínútur, og væri þá máske hægt að samræma vélræna upptöku og skrifaraupptöku, að skrifarar tækju upp allar ræður, sem væru styttri en fimm mínútur, svo að miðað sé við einhvern tíma, en þingmenn flyttu lengri ræður í mikrófóninn, eða þá komið væri fyrir lausum mikrófónum, nokkrum í hverri deild, sem gætu leikið hér á milli á þingmannaborðunum, og álít ég þetta síðara vel geta komið til mála. Væri mjög fróðlegt og æskilegt, ef hv. nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, vildi láta rannsaka, hvort ekki væri unnt að fara þessa leið.

Í sambandi við till. hv. 11. landsk. um að gera tilraun til að taka ræðurnar upp á plastþráð, vil ég minna á það, að hér er einnig til diktafónn með fleiri en einni spólu, þannig að ekkert þyrfti að falla úr ræðunum, ef gerð yrði tilraun með að taka upp ræður með honum, auk þess sem vandalaust yrði að fá lánað tæki til reynslu í þessu efni.

Ég vil að lokum segja það, að mér virðist harla einkennilegt, að þetta mál skuli hafa verið ár eftir ár til meðferðar hér í þinginu, án þess að komizt hafi verið nokkuð lengra áleiðis. Að vísu hefur hv. þm. A-Húnv. frætt okkur um það, að forsetar þingsins hafi málið til meðferðar og gert eitt og annað í því, þótt að vísu hafi ekki verið hægt að ráða mikið af ræðu hans, og ég tel mig ekki hafa getað séð af ræðu hans, að réttast sé að taka upp hraðritun eingöngu, fyrr en þá úr því hefur verið skorið örugglega, að aðrar leiðir til úrbóta í þessu efni séu útilokaðar.

Varðandi kostnaðinn við vélræna upptöku má benda á það, að með þessum hætti mætti máske spara sér mikinn prentunarkostnað á ræðunum, því að ef þskj. öll og atkvgr. væru prentaðar, væri spurningin, hvort ekki væri nóg, að ræðurnar lægju frammi í fjölritunarformi, t. d. um hundrað eintök af hverri ræðu, og þyrftu þær þá ekki að fara lengra en á skjalasafnið. Um leið og ræðurnar væru vélritaðar, mætti nota stensla eða plötur, eins og notaðar eru við ljósprentun, til að fá fleiri eintök af ræðunum. Ég álít líka, að það geti vel komið til greina að breyta útgáfu alþingistíðinda, t. d. með því að gefa þau út í vélrituðu eða ljósprentuðu formi, og væri spurningin, hversu mikinn sparnað mætti fá með því. Og varðandi ræðuritunina sjálfa ætti a. m. k. að vera hægt að koma henni í það horf, að ræðurnar gætu legið fyrir innan mjög skamms tíma eins og þær koma frá þingmönnunum, og ættu þingmenn þess þá kost að lesa ræðurnar yfir, færa þær til betra máls og leiðrétta skekkjur, án þess þó að gera efnisbreytingar. En mér finnst, úr því að þessu máli er enn hreyft hér á Alþ., að þá ætti nefnd sú, sem fær það til athugunar, að gera gangskör að því, að komizt yrði eitthvað lengra áleiðis en hingað til hefur verið farið í þessu máli.