06.12.1951
Efri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

6. mál, togarakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég held nú, að það sé sannað á viðgerðarkostnaðinum, að eitt skip hefur farið langt fram úr áætlun. Mér skildist nú á hæstv. félmrh., að það hefði verið athugað, hvort vit væri í þessu máli fjárhagslega séð. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig er ætlazt til þess, að greitt verði úr þeim vanda, er komið er í höfn með tap eftir veiðiför? Þetta er nýr vandi, sem verið er að skapa. Ekki er hægt að leggja tapið sem útsvör á þorpsbúa. Fólkið á skipinu á forgangskröfu til launa sinna, en það rýrir veðhæfni skipsins. Skipverjar geta þá selt skipið til greiðslu á launum sínum. Því er ekki horft á málið til enda? Ég skal ekki tefja málið nú og ekki ræða það frekar, en ég mun gefa út sérstakt álit við 2. umr.