12.10.1951
Neðri deild: 10. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og það var vegna þess, að ég vildi, að það kæmi skýrt fram, sem ég held reyndar að sé skoðun allra meðnm. minna í fjhn., að með síðari hluta 1. gr. þessa frv. sé engu slegið föstu um skilning Alþingis á þeim lögum, sem um áburðarverksmiðjuna fjalla. Ég hefði nú að vísu heldur kosið um þessa 1. gr., að síðari hlutinn hefði verið þannig orðaður: „og endurlána Áburðarverksmiðjunni h/f með sömu kjörum og lánið er tekið til byggingar áburðarverksmiðjunnar.“ Ég áliti það í meira samræmi. Minn skilningur er, að ríkið sjálft byggi verksmiðjuna og eigi hana, en hlutafélag sjái aðelns um reksturinn. Hins vegar þótti mér vænt um yfirlýsinguna frá hv. form. n. um, að samkomulag hefði verið í n. um það, að nauðsynlegt væri að taka sjálf lögin um áburðarverksmiðju til athugunar, því að það er auðvitað bezt að gera það sem fyrst, til þess að þeir menn, sem lagt hafa fram fé í þetta fyrirtæki og gert það í þeirri meiningu, að þeir eignuðust hlut í verksmiðjunni, geri það ekki með þeim forsendum, sem seinna mundu ekki standast, þannig að Alþingi væri hálfpartinn að blekkja þá með svona óljósri löggjöf um þessi mál. Þess vegna undirstrika ég, að það þarf að taka lögin fyrir til athugunar.

Ég vil, um leið og þetta mál heldur áfram, minna á það tæknilega atriði í sambandi við þetta mál, að þessi áburðarverksmiðja, sem fær ekki nægilegt rafmagn með Sogsvirkjuninni nú, er undirbúin á þeirri forsendu, að þriðju virkjun Sogsins, sem fyrirhuguð er, verði búið að framkvæma rétt eftir að áburðarverksmiðjan verður tilbúin. Verður það að vera, ef ekki eiga að hljótast vandræði um rekstur verksmiðjunnar. Ég álít, að það ætti að vera meiri samvinna og betri undirbúningur tæknilega undir verksmiðjurekstur og meira samstarf um þetta opinbera fyrirtæki milli þeirra aðila, sem sjá um stofnun verksmiðjunnar og virkjun Sogsins.