13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (382)

6. mál, togarakaup ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frsm. n., að ekki er ágreiningur í n. um staðfestingu brbl., sem prentuð eru á þskj. 106. Þau segja aðeins í 1. gr., að ríkisstj. sé heimilt að kaupa einn togara innanlands og taka til þess nauðsynleg lán. Samkv. aths. var þetta gert til þess að bjarga Siglufirði sökum þess neyðarástands, sem þar hafði skapazt vegna langvarandi atvinnuleysis. Síðan var hins vegar frv. breytt í Nd., eins og sést á þskj. 262, þar sem bætt var inn í nýrri gr. samkv. ósk hæstv. forsrh. Brtt. hans er á þskj. 247, og um hana er ágreiningur, en ekki um brbl. Ég hef gert ágreining út af þessu og þess vegna skrifað undir nál. með fyrirvara og mun því gera sérstaklega grein fyrir afstöðu minni.

Þegar samþ. voru á Alþ. l. nr. 50 frá 16. marz 1951, um breyt. á l. um togarakaup ríkisins, var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán til kaupa á gömlum togurum og til að setja olíukyndingu í þá, enda skyldi ábyrgðin ekki fara fram úr 75% af kostnaðarog matsverði skipanna með olíukyndingu. Þá lýsti hæstv. forsrh. yfir því, að þetta yrði ekki gert nema að undangenginni athugun sérfróðra manna og að þeir teldu það geta komið að gagni og náð því takmarki að bæta ástandið í atvinnumálum á viðkomandi stöðum.

Ég tel, að þetta hafi ekki verið uppfyllt. N. kallaði þessa menn á sinn fund, og þeir segja, að þeir hafi aðeins verið beðnir um að skoða skipin, en ekki að kveða upp dóm um það, hvort hægt væri að gera við þau eða hvað viðgerð og breytingar mundu kosta, nema að því er varðar „Búðanesið“, sem þeir hafa gert áætlun um. Hins vegar hafa þeir t.d. verið beðnir um að skoða „Belgaum“ og sent skoðunarskýrslu, en enga áætlun um kostnaðinn, og sömuleiðis hafa þeir sent skoðunarskýrslu um „Júpíter“, en ekkert mat hefur farið fram í þessu sambandi. Þetta eru þær upplýsingar, sem n. hefur fengið, og ég get því ekki talið, að loforð hæstv. forsrh. hafi verið uppfyllt. Ég tel því víst, að fyrir ríkissjóð, sem ber ábyrgð á viðgerðunum og kaupverðinu, hafi skipin hækkað tvöfalt og jafnvel þrefalt í verði, og er það illa farið.

Ég tel ekki enn úr því skorið, hvort þessi skip geta gegnt sínu hlutverki. Þau eru úrelt og geta ekki verið á sömu miðum og önnur skip, heldur verða þau að vera á öðrum miðum, enda hefur það sýnt sig, að „Belgaum“ hefur ekki aflað meira en helming móts við önnur skip á sama tíma. Þetta óttaðist ég alltaf og bætir það ekki úr skák, að ekki hefur verið farið eftir þeirri stefnu, sem lofað var.

Þar sem ég lít þannig á þetta mál, er ekki nema eðlilegt, að spurt sé, hvað ég vilji þá gera, og ég skal lýsa yfir því, að ég tel, að betra væri, að þetta fé væri veitt til iðnaðar á þessum stöðum. Það er vert að hafa það í huga, að hér er aðeins um byrjun að ræða og að sýnilegt er, að aðrir staðir munu koma á eftir. Ég vænti því þess, að þá verði þessu máli sinnt og að stj. sýni það í verki, að hægt er að breyta til í þessum efnum og veita þessa aðstoð á ódýrari hátt.

Að síðustu vildi ég segja þetta: Þegar umr. um l. nr. 50 frá 16. marz 1951 fóru fram í þessari hv. d., þá lýsti hæstv. forsrh. því Yfir, að hann mundi ekki nota heimild þá, sem ríkisstj. var gefin í 2. gr. l., nema það að dómi sérfróðra manna þætti líklegt til góðs árangurs. Af skjölum, sem fyrir liggja, er upplýst, að slíkt álit sérfróðra manna liggur ekki fyrir, enda engir sérfræðingar kvaddir til þess að geta slíkt álit, heldur eru tveir vélfræðingar útnefndir til þess að gefa lýsingu á 4 skipum, en slík lýsing segir ekkert um það, hvort líklegt sé, að góður árangur verði af því að styrkja menn til að kaupa og breyta hinum gömlu togurum og gera þá út hér eftir slíkar breytingar. — Þá verður ekki séð, að l. um Höfðakaupstað heimili ríkisstj. að verja fé til togarakaupa á þann hátt, sem hér hefur verið gert. Virðist því hæstv. ríkisstj. hafa veitt að sumu leyti ábyrgð þessa án heimildar og að öðru leyti vanrækt að láta fara fram athugun á málinu, eins og lofað var, áður en ábyrgðin var gefin. Vegna þess og með því enn fremur, að ég tel, að sú hjálp, sem hér er um að ræða, leysi ekki atvinnuörðugleika þeirra aðila, sem hugsað er að hjálpa með þessari aðstoð, og að ríkissjóður hljóti fyrr en varir að greiða allar þær upphæðir, sem hér um ræðir, og þar sem ég enn fremur vil ekki eiga þátt í slíkri meðferð á fé ríkissjóðs, tek ég ekki þátt í afgreiðslu frv. og mun því sitja hjá við atkvgr.