07.12.1951
Neðri deild: 38. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (394)

117. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að afsaka, að ég hef líklega ekki verið viðstaddur, þegar þessi umr. byrjaði. Var búið að hafa framsögu af hálfu fjhn. í þessu máli? (Forseti: Já, svo mun hafa verið.) Ég hef á nál. fjhn. áskilið mér rétt til þess að flytja brtt. við þetta frv., þó að ég sé annars í aðalatriðum samþykkur því, sem í frv. er.

Vildi ég í fyrsta lagi gera brtt. við 3. gr., sem er ný gr. í þessari lagasamstæðu. Hún hefur hingað til verið sem sérstök lög og framlenging, en er nú tekin upp í þessi lög. Þessi 3. gr. fer fram á sérstaka lækkun tekjuskatts af lágtekjum, og skulu ákvæði laga frá 1950 gilda til ársloka 1952. Samkvæmt þessum l., nr. 60 frá 1950, á skattlækkunin að nema 331/3%. Þessi sérstaka lækkun tekjuskatts af lágtekjum er aðeins þegar árstekjur eru ákaflega lág upphæð. Það eru aðeins þeir gjaldendur tekjuskattsins, sem hafa 20 þús. kr. í hreinar árstekjur og konu og barn á framfæri, sem fá þessa 331/3% lækkun. Ég álít, að þetta lágmark sé allt of lágt. Hv. þm. vita það allir, að nú er svo komið, að maður, sem hefur konu og barn á framfæri, ætti engan tekjuskatt að hafa, jafnvel þótt hann hefði 30 þús. kr. í hreinar árstekjur. Það hefur verið sýnt fram á það hér og viðurkennt af öllum, að t.d. Dagsbrúnarmaður með konu og barn á framfæri, sem slapp nokkurn veginn við að greiða tekjuskatt fyrir t.d. árið 1934, þarf nú að greiða tekjuskatt, sem nemur mörgum hundruðum króna. Tekjuskatturinn leggst sem sagt hlutfallslega þyngra á menn nú, vegna þess að skattstiganum hefur ekki verið breytt frá 1935. Hins vegar er það svo, að tekjur, sem eru um 30 þús. kr., eru fyrir fjölskyldumann hreinustu þurftarlaun, þannig að það er ekki nema eðlilegt, að slíkir menn sleppi við tekjuskatt. Nú er komið fram frv. um að bæta úr þessu með því að hækka persónufrádráttinn. Ég hef borið fram frv. um persónufrádrátt, sem hefði þýtt, að skattur Dagsbrúnarverkamanns með 30 þús. kr. laun hefði orðið lítill sem enginn. Því var svarað í fjhn. af nm. annarra flokka en Sósfl., að slíkur persónufrádráttur mundi koma að litlu gagni fyrir lágtekjumenn, en verða stórkostlegur hagnaður fyrir hátekjumenn, vegna þess að þessi persónufrádráttur kæmi þeim að svo miklum notum. Ég hef því reynt að finna aðferð, sem ég held að fullnægi kröfum hv. þm. V-Húnv. um, að slík hækkun yrði ekki til þess að létta skatta hátekjumanna. Brtt. mín tryggir þetta. Þá, sem hafa 30 þús. kr. tekjur, ber að losa algerlega við tekjuskatt. Einnig felst í frv. að fella niður mjög mikið af sköttum gjaldenda, sem hafa milli 30 og 40 þús. kr. hreinar árstekjur og konu og barn á framfæri. Þannig fer fram nokkurs konar stigsminnkun á því, hve mikið er fellt niður af tekjuskattinum. Tekjuskattur gjaldanda með 30 þús. til 33 þús. kr. hreinar árstekjur og konu og barn á framfæri skal falla niður að þremur fjórðu hlutum, af 33–36 þús. kr. árstekjum skal tekjuskattur falla niður að hálfu leyti, og tekjuskattur þeirra, sem hafa 36–40 þús. kr. árstekjur, skal falla niður að fjórða hluta. Eftir minni brtt. fá þeir, sem hafa yfir 40 þús. kr. í hreinar árstekjur, enga rýmkun á skattinum, en hinir nokkra. Ég vona, að mér hafi tekizt með þessari brtt. minni að fullnægja þeim óskum, sem komið hafa fram um að létta skattinum af þeim mönnum, sem hafa þær tekjur, sem ég greindi.

Ég flyt einnig aðra brtt. við frv. Hún er um, að á eftir 4. gr., sem fjallar um tekjuskatt, skuli bætast ný grein, sem feli í sér þrjár málsgr. 1. málsgr. er svo hljóðandi: „Giftri konu, sem stundar sjálfstæða atvinnu utan heimilis síns, er heimilt að telja fram sérstaklega til skatts þær tekjur, sem hún hefur af þeirri atvinnu, enda sé teknanna ekki aflað í fyrirtæki, sem maður hennar er meðeigandi að eða hluthafi í, og skal þá leggja á hana samkvæmt því.“ Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að tala frekar fyrir þessari till. Allir hv. þm. vita, að það hafa komið fram eindregnar kröfur kvenna og samtaka þeirra um allt land um, að skattar væru rýmkaðir hjá viðkomandi skattgreiðendum. Slíkar kröfur hafa komið fram varðandi giftar konur, að þær mættu telja sérstaklega fram til skatts. Sérstaklega á þetta við um giftar konur, sem stunda atvinnu utan heimilisins. Ég veit, að allar þessar kröfur hafa átt erfitt uppdráttar hér innan þingveggja. Mér virðist, þar sem ég hef flutt þessa till. með það fyrir augum að fá hana samþ., að ég hafi farið eins hóflega í sakirnar og frekast var unnt, án þess að hægt væri að segja, að verið væri að draga stórkostlega úr þeim tekjustofni, sem tekjuskatturinn er, en sýna samt í nokkru, að Alþingi vill taka nokkurt tillit til þessa réttlætismáls og sýna sanngirni gagnvart þeim kröfum, sem fram hafa komið í þessu efni. Ef ég man rétt, þá byrjaði hæstv. forseti fundinn á því að lesa upp fjöldamargar óskir um, að Alþingi yrði við þessum kröfum um skattafyrirkomulag. Ég hef haft orðalagið á þessari brtt. eins og Sósfl. hefur haft það áður, bæði í sérstöku frv. og í brtt. við breyt. á l. um tekjuskatt.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. sýni þá sanngirni að samþ. brtt. og létta þannig álögunum af í fyrsta lagi fátækum mönnum með lágar tekjur, sem eiga erfitt með að draga fram lífið, eins og nú er ástatt í fjárhagsmálunum, og í öðru lagi að sýna nokkra sanngirni gagnvart kröfum, sem bornar hafa verið fram, t.d. af kvenfélögum, með tilliti til þess, að þegar gift kona vinnur utan heimilis sins, eigi hún rétt á að telja fram sínar tekjur sem sérstakar tekjur og að á þær sé lagt sem sérstakar tekjur. Ég vildi því mega vænta þess, að hv. þm. geti samþ. þessa brtt. mína við þessa umr. Að öðru leyti þarf ég ekki að ræða frekar um það lagafrv., sem hér liggur fyrir. Það er gamall kunningi og þrautrætt hér í þessari hv. d.