22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér þykir viðeigandi að láta nokkur orð falla, eftir að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa sett fram sínar skoðanir um þetta mál. Þeir hafa talað mjög í sama tón báðir um þetta, hv. 8. landsk. og hv. 2. þm. Reykv., og ég get þess vegna að miklu leyti svarað þeim sameiginlega.

Svo er að heyra á hv. þm., að þeim hafi komið á óvart, að farið er fram á að framlengja söluskattinn. En það getur ekki verið, að þetta komi hv. þm. á óvart, þar sem það var ýtarlega gerð grein fyrir því í sambandi við 1. um;r. fjárl. af minni hendi, hvernig ástatt er um framtíðarhorfur í útgjaldaþörf ríkisins, og þar sem enn fremur fjárlfrv. ber þetta alveg greinilega með sér. Hv. þm. þarf því ekki að koma á óvart, þó að ég héldi ekki langa ræðu eða framsögu fyrir þessu máli, þar sem ég hélt þá framsögu, sem fyrir því þarf, í sambandi við fjárlagaumr. Þetta mál er aðeins hluti af fjárl., þótt það sé sérstakt lagafrv., og í fjárl. er reiknað með tekjum af söluskattinum, og hv. þm. hafa séð, að þótt reiknað sé með tekjum af söluskattinum, þá er svo sem enginn greiðsluafgangur ráðgerður í fjárlfrv. Þess vegna þurfti það ekki að koma neinum á óvart, að fram er lagt frv. um söluskattinn.

Þá minntist hv. þm. á það, að gjaldþoli væri mjög ofboðið með sköttum og það væri rík nauðsyn að framlengja ekki söluskattinn, og mér skildist á þeim, að þeir vildu einna helzt, að hann yrði ekki framlengdur; þó kom það ekki greinilega í ljós. Ég vildi þá leyfa mér að spyrja þessa hv. þm., hvaða úrræði þeir sjái um afgreiðslu fjárl., ef söluskatturinn er ekki framlengdur. En söluskatturinn verður væntanlega á árinu í kringum 80 milljónir — hann er áætlaður í frv. 77 millj. — af 360 milljóna ríkistekjum, þannig að hann er upp undir 1/4 af öllum tekjum ríkissjóðs. Ég vildi því leyfa mér að spyrja þessa hv. þm., því að það er leiðinlegt að tala um þetta mál alveg svart, hvaða úrræði þeir sjá til þess að lækka fjárl., þannig að hægt sé að afnema söluskattinn að einhverju leyti eða öllu leyti, og ég vildi leyfa mér að spyrja þá, hvað það er í fjárl., sem þeir vilji láta breyta, þannig að möguleiki sé að afnema söluskattinn að einhverju eða öllu leyti. Þetta er nauðsynlegt að gera til þess að reyna að skilja, hvaða áhrif mundi hafa fyrir þjóðina niðurfelling þeirra útgjalda, sem af fjárl. yrði að færa, til þess að hægt væri að létta skattana.

Það kom aðeins fram hjá hv. 8. landsk., að kannske væru tekjurnar svo varlega áætlaðar, að óhætt væri að fella niður söluskattinn að einhverju leyti, þótt ekki væri breytt gjaldabálki frv. Ég hygg, að hv. þm. mundi komast á aðra skoðun, ef hann kynnti sér þetta mál rækilega. Það er að vísu gerandi ráð fyrir því, eins og ég útskýrði nokkuð í framsöguræðu minni fyrir fjárl., að tekjur af verðtolli og söluskatti verði nokkru hærri á árinu en áætlað er nú í fjárl. En þá kemur það til athugunar, sem miklu máli skiptir, að innflutningurinn í ár er óvenjulega hár, vegna þess að verið er að safna verzlunarbirgðum með sérstakri hjálp og fjárhagslegri aðstoð erlendis frá, og það er ekki hugsanlegt, að það endurtaki sig. Þess vegna er ekki hægt með neinni skynsemi að reikna með því, að þessi tekjustofn gefi jafnmikið af sér á næsta ári eins og í ár, ég verða menn þess vegna annaðhvort að framlengja söluskattinn eins og hann hefur verið eða finna leið til þess að lækka fjárl. Það er ekki hugsanlegt, að sú afgreiðsla geti orðið forsvaranleg að fella niður söluskattinn án þess að fjárlfrv. sé lækkað um leið og þá ekki lækkað til málamynda, heldur yrðu ríkisútgjöldin raunverulega að lækka frá því, sem áætlað er í fjárl. Þess vegna vil ég endurtaka spurningu mína til þessara hv. þm., sem svo mjög lýsa því, að það þurfi að finna leiðir til þess að lækka söluskattinn, hvað það sé af ríkisútgjöldunum, sem þeir telja fært að lækka eða vilja losa sig við.

Í þessu sambandi er fróðlegt að athuga, þegar hv. þm. tala um skattabyrði, hvort skattabyrðin hefur verið aukin alveg nýlega eða ekki, og í því sambandi vil ég leyfa mér að upplýsa, sem ég upplýsti við fjárlagaumr., að skattstofnar ríkisins eru núna þeir sömu — nærri því nákvæmlega — eins og þeir voru fyrir tveim árum, þannig að ríkið hefur ekki aukið sínar skattaálögur eða aukið sína skattstofna. Enn fremur vil ég leyfa mér að vekja athygli manna á því, að tekjuhlið fjárlfrv. er um 19% hærri en tekjurnar 1949, þ.e.a.s. fyrir gengislækkun, og held ég, að vandfundinn sé nokkur aðili í þessu landi nú, hvort sem það eru stofnanir eða fyrirtæki, sem eitthvað hliðstætt stendur á um og ríkisreksturinn, sem getur sýnt, að ekki hafi aukizt meira en um 19% það, sem fyrirtækið þarf til þess að halda sams konar rekstri við og var fyrir gengislækkun. Þess vegna er það allt úr lausu lofti gripið og ómerk orð, þegar talað er um aukna skattabyrði ríkisins. Hún er hlutfallslega sízt þyngri en hún var fyrir gengislækkun og er í rauninni sú sama.

Þessir hv. þm. tala um fyrirheit um það að draga úr sköttunum og lækka skattana, sem ekki hafi verið efnt. En í því sambandi vil ég minna þessa hv. þm. á, að slíkt fyrirheit hefur aldrei komið frá mér. Ég hef aldrei imprað á því, að þetta væri mögulegt, og það er af því, að mér sýndist augljóst, þegar ég tók við þessum málum, að söluskatturinn yrði að standa áfram. Hiti er svo annað mál, að ég gerði mér í vor sem leið vonir um, að það mundi fara svo, að hægt yrði að létta á einhverjum skattgreiðslum til ríkissjóðs, en þær vonir fóru út um þúfur við þær hækkanir, sem urðu á þessu ári erlendis og innanlands, og vegna þess kostnaðarauka, sem þær hækkanir höfðu í för með sér, var auðséð, að þær vonir, sem menn gerðu sér um það, að eitthvað væri hægt að lækka skattana til ríkisins, voru farnar út um þúfur, nema við ættum að vænta óvenjulegs góðæris, en því hefur ekki orðið til að dreifa.

Hv. 3. landsk. talaði um, að menn væru óánægðir með söluskattinn og hann hefði áhrif á dýrtíðina til hækkunar, og ég efast ekkert um, að þetta er hvort tveggja alveg rétt, en það breytir ekki því, að við neyðumst til þess að halda áfram innheimtu þessa skatts af ástæðum, sem ég hef rakið.

Í sambandi við þennan söluskatt vil ég svo segja það, að ég þekki ekki neina þjóð, sem ekki hefur orðið að grípa til þess að innheimta skatt af almennri verzlunarumsetningu svipað og þennan skatt, sem við innheimtum. Með vaxandi kröfum þegnanna á hendur ríkinu um hvers konar þjónustu, svo sem tryggingar og annað slíkt, hafa allar þjóðir neyðzt til þess að leggja á slíkan skatt, og undanfarið hefur verið sú þróun í nágrannalöndunum, að þar sem ekki hefur áður verið slíkur skattur, þar hefur hann verið tekinn upp, og þar sem slíkur skattur var áður, þar hefur hann verið hækkaður. Mér er t.d. minnisstætt í þessu sambandi, að Norðmenn hafa haft um nokkurra ára skeið 61/2 % söluskatt á allri umsetningu, en þeir hækkuðu hann á þessu ári upp í 10%, og þannig hefur þróunin verið í flestum löndum. Þegar kröfurnar eru svo miklar og löggjafarvaldið vill láta ríkið skipta sér af jafnmörgum atriðum og orðið er hér og annars staðar, þá hefur ekki hrokkið til það, sem menn hafa tekið með tekjusköttum, ekki heldur það, sem tekið er með aðflutningsgjöldum, og þá hefur þetta orðið þriðja leiðin, sem hver þjóðin af annarri hefur farið inn á, þ.e. að leggja á þessa almennu söluskatta.

Það má minna á það í sambandi við þetta, þegar rætt er um dýrtíðina og söluskattinn, að vissulega er það rétt, að söluskatturinn hlýtur að hafa áhrif í þá átt, að vörurnar verða dýrari en ella mundi, en hitt fullyrði ég, að ef söluskatturinn yrði afnuminn, án þess að ríkisútgjöldin lækkuðu, og afleiðing þess yrði sú, að ríkissjóður yrði rekinn með stórkostlegum halla, þá mundi það koma fram í vaxandi dýrtíð, sem ekki væri léttara fyrir menn að bera en söluskattinn nú.

Hv. 8. landsk. minntist á það, að söluskatturinn væri óréttlátur. Það má lengi deila um það, hvernig heppilegast sé að koma fyrir skatta- og tollaálögum, hvaða vörur á að undanþiggja og á hvaða vörur á að leggja þetta eða hitt gjaldið. En ég vil minna hv. 8. landsk. á það, að þessi skattur er ekki uppfinning núverandi ríkisstj., heldur er hann lagður á af ríkisstj., þar sem hann átti sjálfur forsæti. Ég veit, að hann gat ekki einn um það ráðið, hvernig þeim skatti var fyrir komið, sem þá var á lagður, en mér virtist ástæðulaust af honum, þegar á það er litið, að þessi skattur er á lagður á þeim tíma og af þeirri stjórn, að vera nú allt í einu að tala um, að skatturinn sé sérstaklega óréttlátur. Ég held, að við, sem stóðum að söluskattinum, höfum séð, að beinu skattarnir væru orðnir svo háir, að ekki væri hægt að bæta við þá og ekki hægt að leggja á innflutningsgjöldin heldur. Þess vegna kann ég ekki við, þegar þessi þm., hv. 8. landsk., er að tala um það nú, að þessi skattur sé sérstaklega óréttlátur.

Út af því, sem hv. 2. þm. Reyka. sagði um bátagjaldeyrinn, vil ég aðeins taka það fram, að ég mun ekki ræða um hann hér sérstaklega, og vil benda honum á að gera fyrirspurn um það í þinginu. Þetta mál heyrir ekki undir mig, og ég er ekki undir það búinn að upplýsa það, en slíkt mundi viðkomandi ráðh. gera, ef fyrirspurn væri borin upp.

Um söluskattinn er það að segja, að ætlunin er, að hann renni beint í ríkissjóð, en ekki að honum verði varið í eitthvað annað; annars yrði það að koma sérstaklega fram í fjárlögum.

Ég vildi svo láta þetta svar nægja, en enda þessi orð á því, að ekki er hægt að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög, nema ríkissjóður fái söluskattinn — og allan söluskattinn, nema önnur leið yrði fundin, sem menn gætu komið sér saman um til tekjuöflunar í ríkissjóð.