22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Mig langar að víkja nokkrum orðum að einu atriði varðandi söluskattinn. Tilgangurinn með lagasetningunni una söluskattinn var í upphafi sá, að skatturinn væri notaður til að greiða uppbætur á útflutningsafurðir í því skyni að koma í veg fyrir gengislækkun. Álagning söluskattsins var því einn liður í ráðstöfunum að halda niðri framleiðslukostnaði og dýrtið. Þegar breytt var um stefnu og gengið lækkað, átti að vera hægt að losna við söluskattinn. Svo var ekki gert. Til þess tíma var söluskatturinn innheimtur til að koma til leiðar millifærslu á tekjum milli neytenda og útflytjenda. Hann átti ekki að staðnæmast í ríkissjóði. En við gengislækkunina breyttist eðli hans og hann varð venjulegur ríkisskattur, hætti að vera sérstakur skattur til að halda niðri dýrtíðinni og varð dýrtíðaraukandi. Þess vegna er það sérstaklega mikilvægt að athuga, hver áhrif söluskatturinn hefur á dýrtíðina. Í byrjun ágúst var gerð athugun á því, hvað söluskatturinn svaraði til margra stiga í vísitölunni, og kom í ljós, að hann svaraði til 4.86 stiga. Nú má fullyrða, að hann svari til a. m. k, 5–6 stiga. Málsvarar hæstv. ríkisstj. hafa fjölyrt mjög um það, að meginerfiðleikarnir í viðskiptalífinu hafi stafað af erlendum verðhækkunum, sem hafi orðið svo miklar og ruglað allar áætlanir. Athuganir á vísitölunni, sem nú er 150 stig, sýna, að erlendar hækkanir, þ.e. hækkun erlendra liða í vísitölunni umfram afleiðingar gengislækkunarinnar, hafa valdið 13 stiga hækkun. Þetta eru öll áhrif þeirra voðalegu erlendu hækkana, sem málsvarar hæstv. ríkisstj. hafa alltaf verið að tala um, aðeins 13 stig af 50, og þegar þess er gætt, að söluskatturinn svarar til 5–6 stiga af þessu, sér maður, hversu fráleitar staðhæfingar hæstv. ríkisstj. eru, að kenna erlendum hækkunum um erfiðleikana. Eins og nú er komið, að söluskatturinn er orðinn venjulegur ríkisskattur, er í raun og veru fráleitt að halda því áfram að leggja hann á með sama lagi og verið hefur og jafnt á allar vörur. Er löngu orðin brýn nauðsyn á að undanþiggja a.m.k. nauðsynjavörur, en leggja heldur á lúxusvörur. Þá er enn fremur nauðsyn að endurskoða ýmislegt í framkvæmd innheimtu söluskattsins. Á sumar vörur er lagður söluskattur 4–5 sinnum, og sjá allir, hvílík fjarstæða slíkt er, og það verður að bæta eftirlit með söluskattsinnheimtunni. Ekki er jafnauðvelt að skjóta sér undan greiðslu á nokkrum skatti og þar sem skattgreiðendur sjálfir innheimta hann, um leið og þeir selja vörur fyrir peninga. Er það beinn hagnaður, hreinn innborgaður gróði, að skjóta honum undan.

Hæstv. fjmrh. spyr, hvaða tekjustofna stjórnarandstaðan vilji benda á og hvar eigi að fá fé í ríkissjóð í staðinn, ef söluskatturinn væri felldur niður. Það er of flókið mál og umfangsmikið til að gera því skil í stuttri ræðu. En það er margt, sem þarf að athuga og má gera í því sambandi. Vil ég í fyrsta lagi benda á, að tekjuáætlunin virðist mjög varlega gerð, og í því sambandi vil ég minna á, að brýna nauðsyn ber til, að gagngerð endurskoðun fari fram á skattakerfinu í heild. Enn er það, að alla útgjaldahlið fjárlaganna þarf að taka til rækilegrar athugunar. Það versta er að fljóta sofandi að feigðarósi, og hér dugir ekkert kák lengur, heldur þarf gagngerða heildarathugun og vafalaust beinar skurðaðgerðir sums staðar.