22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í umr. þessar almennt, en út af nokkrum orðum, sem hv. 8. landsk. sagði, vildi ég aðeins setja fram stutta athugasemd. Þessi hv. þm. hélt því fram, að núverandi ríkisstj. seildist óeðlilega djúpt í vasa skattþegnanna. Hann staðhæfði þó, að það væri boðorð, sem ekki mætti brjóta, að fjárlög væru greiðsluhallalaus. Það er sannarlega rétt. Nú finnst þessum hv. þm., að það sé alveg óhætt, án þess að hlýðni við þetta boðorð sé stefnt í hættu, að afnema nokkra af þeim tekjustofnum, sem ríkið byggir nú á sínar tekjur. Er þar fyrst og fremst deilt um söluskattinn. Ég hef áður heyrt þau rök, að þetta megi gera, vegna þess að þessi skattur stóð undir útgjöldum ríkissjóðs vegna fiskábyrgðarinnar, en fiskábyrgðin sé nú fallin niður og hafi fallið niður vegna gengislækkunarinnar og gjöld af fiskábyrgðinni hvíli því ekki á ríkissjóði og með þeim höfuðrökum megi krefjast þess, að þessi þungi skattur verði afnuminn. — Nú spyr ég: Er það misminni hjá mér, að þegar hv. 8. landsk. þm. var forsrh., þá hafi verið undirbúin fjárlög fyrir 1950 og útbýtt á Alþingi 29. nóv. 1949, meðan hann enn var forsrh.? Ég veit, að mig misminnir þetta ekki. Það er staðreynd, að fjárlagafrv. var undirbúið af hans stjórn og þá auðvitað mörkuð stefnan af forsrh. eins og öðrum ráðherrum í ríkisstj., en enginn þeirra gerði tilraun til að mælast undan ábyrgðinni. Þetta eru staðreyndir. En er hitt ekki líka staðreynd, að reiknað var með tekjum af núverandi skattstofnum og á þessu fjárlagafrv. var ekki einn einasti eyrir ætlaður til fiskábyrgðarinnar? Í fjárlagafrv., sem stj., sem hv. þm. hafði forsæti í, undirbjó og lagði fram á Alþingi, var ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum ríkissjóðs vegna fiskábyrgðar. Var þar reiknað með öllum tekjustofnunum eins og þeir eru nú, og þó var greiðsluafgangur ekki nema 4.5 millj. kr. Þetta eru staðreyndir, sem ég tel mér skylt að minna á. Það raskar svo ekki hinu, að athuga þarf, hvað óhætt er að gera, og er það til athugunar hjá fjvn. Það er hins vegar ekki óhætt að leggja þungan bagga á ríkissjóð eins og flokkur hv. 8. landsk. þm. vill gera, enda þótt hv. þm. telji, að það eigi að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Það er ekki hægt að þjóna þessu öllu í einu, en það er verkefni ríkisvaldsins, Alþ. og ríkisstj., að athuga, á hvern hátt auðið sé að mæta eðlilegum þörfum almennings í vandamálum hans með því að létta skattabyrðina, án þess þó að með því sé teflt í hættu þessu meginboðorði. Það verður ekki sagt, að þessi hv. þm., sem var forsrh. í ríkisstj., er tók alla þessa skattstofna án þess að ætla eyri til fiskábyrgðarinnar, tali nú af sanngirni um þessi mál eða skynsemi, þó að hann eigi hvort tveggja til. Mér þótti rétt að benda á þetta, því að þessi hv. þm. hefur átt svo ríkan hlut að þessu máli, að rétt væri fyrir hann að athuga fortíðina, áður en hann fer út á hála braut í þessum efnum.