22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 7. þm. Reykv. minntist á þá erfiðleika, sem bæjar- og sveitarsjóðir eiga nú við að stríða. Ég skal ekki fara frekar inn á það á þessu stigi málsins. Hvað sem þeim vanda líður, er svo ástatt um afgreiðslu fjárlaga, að ekki er hægt að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög nema með því að leggja á söluskatt.

Ástæðan til þess, að ég stóð upp, var annars hin hvassyrta ádeila, sem hv. 8. landsk. þm. kom hér með. Hann taldi það óverjandi af mér að bera saman niðurstöður ríkisreikningsins 1949 um tekjur ríkissjóðs og áætlun fjárl. fyrir árið 1952, en samkvæmt þeim samanburði hafa tekjurnar aðeins hækkað um 19%. Ég vil mótmæla þessu, þar sem ég tók það skýrt fram, að þessi samanburður byggðist á ríkisreikningnum 1949 og áætlun fjárl. fyrir árið 1952; sem er það eina, sem hægt er að miða við nú. Enginn veit með vissu, hvað tekjurnar verða, en ég hef leyft mér að gera þennan samanburð, og það skakkar áreiðanlega ekki miklu, að hann sé réttur. — Þá sagði hv. 8. landsk., að það væri ekki rétt að ætlast til, að hann kæmi með till. um lækkun á útgjöldum fjárl. Ég álít þvert á móti, að það sé skylda þm., sem vilja fella niður tekjuliði á fjárl., að benda á aðra í staðinn eða þá að sýna fram á, hvaða útgjöld sé hægt að lækka. Það er því bezt, að þessi hv. þm. geri grein fyrir því, hvernig hægt er að afgr. fjárl. án söluskattsins. — Þá sagði hv. 8. landsk., og einnig hv. 3. landsk., að söluskatturinn væri nú allt annars eðlis en áður, eftir að gengisbreyt. hefði átt sér stað. Hv. 8. landsk. sagði, að þegar hann hefði haft stjórnarforustuna, hefði söluskatturinn verið lagður á til þess að standa undir útgjöldum vegna dýrtíðarráðstafana og til þess eins hefði hann verið lagður á. En ég vil benda á það, eins og hæstv. atvmrh. gerði, og hv. þm. þurfa að minnast þess, að þegar fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, þurfti á öllum söluskattinum að halda til þess að mæta almennum útgjöldum ríkissjóðs, svo að ekkert var afgangs til annarra framkvæmda. Ef halda átti áfram uppbótaleiðinni, varð því að leggja á nýja skatta vegna bátaútvegsins. Þannig var málum komið, og því mega menn ekki gleyma. — Loks átaldi hv. 8. landsk. það, að skattar væru innheimtir um of og án tillits til þess, hvernig hag landsmanna væri komið. Það verður ekki annað sagt en að það komi úr hörðustu ,átt, að þessi hv. þm. skuli ásaka ríkisstj. í sambandi við tekjuafganginn, því að hann fer að verulegu leyti til greiðslu á vanskilaskuldum fyrrv. ríkisstj. Ég vil spyrja hv. 8. landsk., hvort hann ætlast til þess, að þessar vanskilaskuldir, m.a. 100 millj. kr. hjá Landsbanka Íslands, verði aldrei greiddar. Það er svo að heyra, fyrst það er talinn glæpur að grynna á þessari súpu. Í þessu sambandi er það annars líka athyglisvert, að þeir sömu hv. þm. sem tala um tekjuafganginn sem eins konar blóðpeninga sjá ekkert annað úrræði til þess að standa undir þeim málum, sem almenningi koma að gagni, en að leita í þennan tekjuafgang. Um tekjuafganginn er ég reiðubúinn að ræða frekar, en ég vil ljúka máli mínu með því að endurtaka spurningu mína til hv. 8. landsk.: Var það ætlun hans, að vanskilaskuldirnar yrðu aldrei greiddar, fyrst það er talinn glæpur að grynna á þeim?