22.10.1951
Neðri deild: 16. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur varið hér söluskattinn og segir sem áður, að ríkissjóður geti ekki af þessum skatti séð. Aðalröksemd hæstv. ráðh. er, að ekki sé hægt að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Ég minnist þess þó, að hæstv. fjmrh. þóttist sjá ýmis ráð til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, áður en hann varð fjmrh., en nú sér hann enga leið. Ég álít hins vegar, að ekki verði lengur komizt hjá því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs í sambandi við embættisreksturinn. Fjárlagafrv. nú felur í sér stórfelldar hækkanir frá því, sem áður var. Embættiskostnaðurinn hefur aukizt, embættismönnum fjölgað, það hefur beinlínis verið bætt við mönnum og reksturinn orðið dýrari. Þó að hæstv. ráðh. neiti að viðurkenna það nú, er hægt að draga úr þessum kostnaði, ef viljinn er fyrir hendi. Þá er þess að geta, að á yfirstandandi ári verður um verulegan tekjuafgang að ræða, og þess vegna er hægt að létta af óhæfilega háum sköttum. Afsökun hæstv. ráðh., að skilyrði þess sé, að þm. bendi á leiðir til útgjaldalækkana, stenzt ekki. Það mætti benda á ýmsar leiðir, og það hefur verið gert áður, eins og hæstv. ráðh. veit, en það er fyrst og fremst verkefni ríkisstj. að sjá um, að útgjöld ríkissjóðs hækki ekki. (Atvmrh.: Er hv. þm. andvígur kauphækkuninni, sem starfsmenn ríkisins fengu? Hækkun útgjaldanna stafar fyrst og fremst af þeirri kauphækkun.) Nei, það er hægt að spara án þess að lækka laun einstakra manna, það er t.d. ástæðulaust að fjölga opinberum starfsmönnum. (Fjmrh.: Það hefur nú lítið verið gert að því. — EOl: Hvað kostar Benjamín?) Þá heldur núverandi ríkisstj. því fram, að hún hafi ekki hækkað skatta og tolla frá því, sem áður var. Þetta er rangt. Söluskatturinn hefur hækkað, og ekki nóg með það, hann kemur nú fram sem nýr skattur. Söluskatturinn var upphaflega lagður á til þess að greiða útflutningsuppbætur og til niðurgreiðslna á háu verðlagi innanlands. Nú hefur verið hætt við þetta, sem kom landsmönnum að góðu í hærra fiskverði og lægra verði á neyzluvörum en ella hefði veríð. Skatturinn er nú tekinn til almennra útgjalda og kemur því fram sem nýr skattur og stórkostlega auknar álögur.

Það er því augljóst mál, að röksemdir ríkisstj. í þessu efni eru ekki haldbærar. Þá sagði hæstv. ráðh., að hann þekkti enga þjóð, sem ekki legði á söluskatt, og að Norðmenn legðu á 10% söluskatt. En hæstv. ráðh. gleymdi að geta þess, að Norðmenn verja gífurlegum fúlgum til þess að greiða niður vöruverðið. Þegar þess er gætt, er það augljóst mál, að röksemdafærsla hæstv. ráðh. fær ekki staðizt. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að ríkissjóður þurfi þessar tekjur til þess að mæta óhjákvæmilegum útgjöldum, og út frá því sjónarmiði virðist útilokað, að neitt tillit sé tekið til þess, hvernig þessi skattur fer með aðra aðila. Hefur hæstv. ráðh. gert sér það ljóst, að nýi söluskatturinn er álíka hár og öll útsvör á viðkomandi stöðum? Hefur hann gert sér það ljóst, að þessi nýi skattur jafngildir því, að útsvörin væru tvöfölduð? Og þetta á að gera samtímís því sem flest bæjarfélög hafa hopað á hæl með útsvörin. Afleiðingin hefur líka orðið sú, að neyðarkall hefur komið frá svo að segja öllum bæjarfélögum á landinu. Ég hélt, að hæstv. ríkisstj., sem veit, hvernig fjárhagsmálum bæjar- og sveitarfélaga er komið, teldi sér skylt að reyna að mæta kröfum þeirra. En nú endurtekur hæstv. ráðh., að söluskatturinn verði að vera jafnhár og áður og að ríkissjóður verði að fá hann allan. Hann getur ekkert slakað til.

Þá er einnig vert að minnast á það, hvernig þessi skattur kemur niður á framleiðslunni og atvinnulífi landsins. Það er vitanlegt, að hann torveldar stórlega allt atvinnulíf í landinu. Þegar svo er komið, að ríkissjóður innheimtir jafnmikið í sköttum og verðmæti alls útflutningsins nemur, geta aðalatvinnuvegirnir ekki sýnt hagstæða útkomu. Rannsókn á verðlagsmálunum, sem nýlega hefur farið fram, sýnir, hvert stefnir. Samkvæmt henni nam innkaupsverð þeirra bátaútvegsgjaldeyrisvara, sem rannsóknin náði til, 1.9 millj. kr., bátaútvegsgjaldeyrisálagning 738 þús. kr., verzlunarálagning 2.4 millj. kr. og tollar, frakt og söluskattur 2.4 millj. kr. Útsöluverð þessara vara er þannig 71/2 millj. kr., en innkaupsverðið tæpar 2 millj. kr. Útflutningsframleiðslan verður að skipta með sér þessari 1.9 millj. kr., en er boðið upp á verðmæti, sem kosta 71/2 millj. kr. Þetta leiðir svo af sér kaupgjaldshækkanir, og ástandið er þannig, að ekki er hægt að finna neitt fyrirtæki, sem sýni hagstæðan rekstur. Hinar miklu álögur ríkisins eiga tvímælalaust mestan þátt í þessu, og þarf vissulega að draga úr þeim. Það stendur nær hæstv. fjmrh. að finna leiðir til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs heldur en að slá útgjöldunum föstum og jafnvel hækka þau án tillits til þess, hvernig útkoman er á rekstri atvinnuveganna. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á, að fundartíma er að verða lokið.) Já, ég er að ljúka máli mínu. — Vegna þess, sem hér hefur komið fram, vildi ég því eindregið mælast til þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, hugleiði það vandlega, sem hér hefur komið fram í þessum umr., hvað þessi hái skattur torveldar mikið allan eðlilegan rekstur í landinu, gerir almenningi erfitt um að draga fram lífið og hve þetta greinilega ræðst á tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga og gerir þeim litt mögulegt að standa við skuldbindingar sínar.