10.12.1951
Neðri deild: 39. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það urðu við 1. umr. þessa máls allýtarlegar umr. um söluskattinn, en hér er um að ræða einn þyngsta skatt, sem nú er lagður á til þess að afla tekna í ríkissjóð, og óvanalegan skatt. Ég leyfði mér að leggja til við þá umr., að söluskatturinn yrði felldur niður. Ég býst ekki við, að ég þurfi að koma fram með rök fyrir því, hve þungt þessi skattur liggur á öllum almenningi nú sem stendur. Hæstv. ríkisstj. er kunnugt um það, hversu þungt þessi skattur kemur niður á mönnum og í mörgum tilfellum ákaflega óréttlátlega. T.d. kemur hann einna þyngst niður á nauðsynjavörum almennings og ýmsum atvinnugreinum eins og iðnaði, sem er að kikna að nokkru leyti undan þessum skatti. En svar hæstv. ríkisstj. mun vera það, að ríkissjóður komi til með að vinna tekjur á þessum skatti, það miklar, að fjárlögin fái staðizt. Nú vil ég segja, að á síðasta ári hefði verið hægt að sleppa söluskatti. En hæstv. fjmrh. svarar með því að segja, að ekki megi vænta þess, að innflutningur til landsins verði eins mikill og þá varð, því að við höfum verið að safna birgðum og höfum fengið gjafafé til þess, eða um 100 millj. kr.

Til þess að gera þetta mál stutt, vil ég segja, að svo framarlega sem þær ráðstafanir verða nú gerðar, sem nauðsynlegar eru, þá er hægt að tryggja eins mikinn innflutning til landsins á næsta ári og var þetta síðasta ár án þess að taka til þess gjafafé. En til þess að þetta sé hægt, verðum við líka að gera aðrar ráðstafanir til þess að auka þjóðarframleiðsluna. Það þarf að gera ráðstafanir til þess að hagnýta betur okkar stórvirku framleiðslutæki, togara og frystihús, til þess að framleiða meiri freðfisk og fleiri tegundir af fiski. Ég vil leyfa mér að halda því fram og skal færa fram sönnunargögn fyrir því, að nú í ár hefði verið mögulegt fyrir þjóðina að selja milli 30 og 40 þús. tonn af hraðfrystum fiski, ef ríkisstj. hefði gert þær ráðstafanir, sem með þurfti, og leyft landsmönnum frjálsan útflutning fisksins. Þetta mun vera um 200 millj. kr. verðmæti, eða 50–100 millj. kr. meira útflutningsverðmæti fyrir fiskinn en nú er. Ísland er nú nægilega ríkt af framleiðslutækjum til þess að hafa meiri útflutning en það hefur. Það er líka viðurkennt af hæstv. ríkisstj., að markaðir, sem Íslandi standa til boða, nægi til þess að tryggja okkur einn til tvo tugi millj. kr. í viðbót, ef landsmenn fá leyfi til þess að nota þá. Og ef þetta frelsi fengist, þá hefði Ísland 100–200 millj. kr. meira í ár til þess að kaupa vörur fyrir og flytja til landsins nú í ár en á síðasta ári. Ef ekki á að verða skömmtun og vöruskortur, verður að gera ráðstafanir til að auka útflutninginn. Ég tók eftir, að fjmrh. sagði, að stj. hefði ekki getað vitað, þegar söluskatturinn var framlengdur, að eins mikið mundi safnast fyrir af vörum og nú hefur gert. Ég get að vísu ekki sannað, að stj. hafi vitað þetta, en hitt veit ég, að 1. des. var farið að gera ráðstafanir til að fá fé til að flytja meira inn. Hún gat því vitað, að með því að afgr. fjárlögin þannig í fyrra gæti orðið þessi greiðsluafgangur, en nú lætur hún sem hún hafi ekki búizt við því. Hins vegar vil ég leyfa mér að halda fram, að á komandi ári sé hægt að láta innflutninginn gefa jafnmiklar tekjur og s.l. ár. En raunverulega er ómögulegt að ræða með fullri beitingu raka um mál eins og söluskatt og fjárlög, án þess að fyrir liggi eitthvað um þá efnahagspólitík, sem stj. hyggst reka. Fjmrh. átti að útbúa áætlun um útflutning og innflutning, sem átti að fylgja fjárlögunum. Það er ekki hægt að ákveða í janúar eða febrúar að auka innflutninginn til landsins gífurlega, á hvern hátt sem það er gert, því að slíkt brenglar alla afgreiðslu fjárlaga. Og eitt af þeim verkefnum, sem fjárhagsráði var falið, var að semja slíka áætlun. Það minnsta, sem stj. getur gert, er að lýsa sjálf yfir sínum pólitíska vilja í þessu eða afgr. á jákvæðan hátt þau lagafrv., sem liggja fyrir um þetta. Ég veit, að það er hægt að slá niður öll rök um, að óhætt sé að fella niður söluskattinn, með því að yfirlýsa, að innflutningurinn verði ekki meiri en þetta og þetta. En það er líka hægt að koma tveim mánuðum síðar og breyta því öllu. — Ég er sannfærður um. að ríkissjóður getur komizt af, þó að mín till. um niðurfellingu söluskattsins verði samþ., svo framarlega sem einnig verður samþ. 12. mál þingsins, sem hér er á dagskrá í dag. Ég vil þess vegna í fyrsta lagi halda fram, að fjárhag ríkissjóðs væri ekki stofnað í voða með niðurfellingu söluskattsins, svo framarlega sem landsmenn mættu framleiða og flytja út með eðlilegum hætti. Í öðru lagi minnist ég ekki, síðan ég kom á þing, að hafi komið eins alvarleg og harðvítug mótmæli og gegn söluskattinum. Hef ég í nál. leyft mér að prenta upp nokkur sýnishorn af þessum mótmælum. Þar sem áður var vani hér fyrr, að mótmælin koma öll úr þeirri stétt, sem álögurnar komu þyngst niður á, koma mótmælin gegn söluskattinum viðar að. Hér eru prentuð upp ekki aðeins mótmæli frá einstökum verkalýðsfélögum, heldur líka samtökum eins og Landssambandi iðnaðarmanna, Bandalagi kvenna, einu afturhaldssamasta bændafélagi í landinu, sem er hægra megin við Framsókn, einu sterkasta atvinnurekendafélaginu eins og Félagi ísl. iðnrekenda. Þannig eru lesin upp hér daglega mótmæli gegn þessum skatti. Ég álít, að Alþ. beri að verða við þessum kröfum og afnema þennan skatt og eigi svo annaðhvort að gefa svo frjálsa innflutningsog útflutningsverzlunina, að hægt sé að komast af án söluskattsins, eða — ef á að halda áfram að hindra menn í að afla gjaldeyris og vinna fyrir gjaldeyri — verði fundnir aðrir og réttlátari tekjustofnar. — Söluskatturinn var upphaflega lagður á til að standa undir fiskábyrgðinni. Með gengislækkuninni var svo meiningin að létta af ríkinu þunga fiskábyrgðarinnar. Gengislækkunin var framkvæmd, en söluskattinum haldið áfram. Eftir það að þungur tollur hafði verið lagður á innfluttar vörur með gengislækkuninni, var svo á næsta þingi söluskatturinn hækkaður og um leið eða rétt á eftir bátaútvegsgjaldeyrinum skellt á eða raunverulega nýrri gengislækkun, því að reglugerðin, sem stj. gaf út án þess að hafa nokkra stoð í lögum, þýðir, að stj. taki í sínar hendur vald hvorki til meira né minna en gengislækkunar, eftir því sem henni þóknast. Því hefur ekki verið mótmælt, að ef stj. hefur rétt til að taka þessar vörur á listann og leyfa að leggja á þær 60% toll, hafi hún líka heimild til að taka aðrar vörur á þennan lista, jafnvel allar vörur, sem fluttar eru til Íslands. Eða hvað hindrar, ef hún hefur rétt til að leggja þennan toll á 10–20 vörutegundir, að hún hafi þá rétt til að leggja hann á 30–40% eða á allar vörutegundir. Og ef hún hefur rétt til að leggja 60% á þessar vörur, hefur hún líka rétt til að leggja 100% á þær. Og ef Englendingar fella pundið í næstu viku, mun þurfa gengislækkun, og ef stj. telur sig hafa rétt til að leggja á bátagjaldeyrinn, hlýtur hún líka að telja sig hafa rétt til þess. En það er bara eitt, sem ruglar þá í höfðinu. Þeir hafa stoð í leyfi frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum og halda, að það séu íslenzk lög. Þeir eru farnir að rugla saman, hvort heimildin komi frá Washington eða frá Alþingi Íslendinga.

Ég vildi taka þetta fram enn einu sinni, vegna þess að þeirri fiskábyrgð, sem söluskatturinn átti að standa undir, hefur nú verið skellt yfir á almenning, fyrst með gengislækkuninni og síðan bátaútvegsgjaldeyrinum. Og nú er margfalt erfiðara að standa undir aðstoðinni við útvegsmenn en var meðan fiskábyrgðin var. Hefði verið nær að halda henni áfram og sjá svo um, að ekki væri þessi okurálagning á vörur. M.ö.o., allt, sem hæstv. stj. hefur gert í sambandi við þetta mál, er tóm vitleysa, og það fást engar upplýsingar um, hvaða heimild sé til viðkomandi bátaútvegsgjaldeyrinum, hvernig sem skorað er á hana að upplýsa það, og í reglugerðinni, sem gefin var út daginn eftir að þingi var slitið, er ekki vísað í nein lög, aðeins óskir ríkisstj.

Ég held, að það sé þess vegna rétt af Alþ. að feila nú þessa lagaheimild, sem stj. hefur til að innheimta söluskattinn, og að það sé rétt að knýja stj. til að leggja fyrir Alþ. áætlun um, hvernig hún hugsar sér að haga útflutningi og innflutningi á næsta ári og hvað eigi að leggja mikið af ólöglegum gjöldum á almenning. Á að gefa þeim útvegsmönnum, sem einoka útflutninginn, einnig rétt til að einoka innflutning margrá vörutegunda? Á að leysa deiluna um saltfiskinn með því að bjóða S.Í.S. upp á ákveðinn kjötútflutning, til þess að betra samkomulag verði á stjórnarbúinu? Ég vil benda á þetta sem eitt dæmi þess, hvernig stj. getur farið að því að leysa öll mál í þjóðfélaginu, ef rétt er að leysa þau með samkomulagi um fríðindi handa einstökum stofnunum. En hví er þá verið að biðja Alþ. um fjárlög? Hingað til er það eitt, sem öll þjóðþing hafa haldið fast í, og það er rétturinn til að leggja álögur á almenning í landinu. Uppruni þinganna er beinlínis í sambandi við það. Núverandi stj. hefur hins vegar fundið ráð til slíks og beitt því þvert ofan í fyrirmæli stjórnarskrárinnar og sýnt sig í því að leggja á álögur án allra lagaheimilda. Ég álít þess vegna, að söluskattinn eigi nú að fella niður, en hins vegar, svo framarlega sem sú till verður ekki samþykkt, þá mun ég við 3. umr. flytja brtt. um að reyna að draga úr því versta við hann.

Eins og vitað er, hefur söluskatturinn lent sérstaklega illa á innlendum iðnaði og það þannig, að oft hefur verið lagt þrisvar sinnum á sömu vöruna í sambandi við innflutning hráefnis og sölu innanlands. Þar sem aðrar þjóðir reyna að stuðla að því, að iðnaður myndist, reynir stj. hér að drepa iðnaðinn og skapa atvinnuleysi á Akureyri, í Reykjavík og þar, sem mest er byggt á iðnaði, og jafnframt rýra gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Það er vitað, að þessi pólitík er vísvitandi stefna, rekin í samræmi við hagsmuni þeirra, sem nú virðast ráða efnahagskerfi Íslendinga. Ein meginstefna auðvalds Randaríkjanna er að eyðileggja innanlandsiðnaðinn til að skapa markað fyrir stóriðjuvörur sínar. Eins og vitað er, hefur Marshallaðstoðin hjálpað til, að þeirra stóriðja eigi sem greiðastan aðgang að mörkuðunum, og hjálpað til að brjóta niður iðnað viðkomandi lands. Hér er nú svo komið, að í þeim iðnaði, sem starfaði í Reykjavík, er með þessum ráðstöfunum stj. búið að fækka um helming, ef iðnaðurinn er tekinn sem heild, en ef litið er á einstakar verksmiðjur, verða í verksmiðjum, þar sem störfuðu 500 manns, aðeins 70 starfandi eftir nýár. Og ýmsir, sem lagt höfðu fé í að kaupa vélar, sem hefðu getað gefið gjaldeyri, ef frelsi hefði verið til að framleiða til útflutnings, verða nú að loka. Það er að vísu gefið, að þó að söluskattinum væri létt af iðnaðinum, mundi það ekki hjálpa nema að litlu leyti, því að hér er um samfelldar aðgerðir að ræða. Jafnhliða því, að söluskatturinn var lagður á iðnaðinn, var um leið verið að stöðva hann með því lánsfjárbanni, sem stj. setti á, og gera honum erfiðara fyrir með því að flytja ekki inn hráefni, en í þess stað fullunnar iðnaðarvörur. Það er þó örlítið í áttina, ef söluskatturinn er afnuminn. — Það hafa komið fram kröfur um, að svo framarlega sem söluskatturinn haldist, verði honum skipt öðruvísi, m.a. að bæjarfélögin fái a.m.k. helming hans, og hafa sósíalistar flutt tillögu í Ed., sem enn hefur ekki fengið afgreiðslu, um, að söluskatturinn í ár verði að nokkru leyti þannig hagnýttur. — En ef þessi brtt. verður felld, mun ég flytja frekari brtt. við 3. umr.