18.12.1951
Neðri deild: 49. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

60. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er satt að segja dálítið skoplegt að heyra hv. 2. þm. Reykv. halda langar ræður um það, hvað illa sé farið með kaupmannavaldið í landinu. Hann hefur ekki hingað til staðið í fylkingarbrjósti til að verja kaupmennina, hvorki í einu né öðru, að því er mér er kunnugt.

Hv. þm. virðist gera lítinn mun á því, hvort um er að ræða skatta eða innheimtufé. Ég held mér sé óhætt að segja, að þar sem söluskattur er ákveðinn, sé litið allt öðrum augum á að innheimta hann en annan skatt, sem er eðlilegt, því að hér er um beina innheimtu að ræða fyrir ríkissjóð, sem menn eiga að standa skil á. Hitt viðurkenni ég fyllilega, að þegar hart er í ári eins og nú, kemur óþægilega við marga að þurfa að greiða út þetta fé skömmu eftir að þeir hafa tekið það inn, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir hafa freistazt til að taka það í reksturinn. Annars hefur hv. þm. ekki lagt þessa till. fram hér til þess að hjálpa þessum mönnum, sem hann er að lýsa hér, hvað eigi í miklum erfiðleikum, heldur til þess að tefja málið hér á þingi. Og ég vil því eindregið leggja til, að hans brtt. verði felld og að frv. eins og það liggur fyrir geti gengið óbreytt til Ed.