12.10.1951
Efri deild: 12. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

40. mál, lántaka vegna áburðarverksmiðjunnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. um, hvort orðin í 1. gr. frv.: „endurlána Áburðarverksmiðjunni h/f með sömu kjörum og lánið er tekið“ — beri að skilja þannig, að Áburðarverksmiðjan h/f greiði hallann af gengistapi og hljóti gróðann af gengishagnaði, ef hann yrði. Það má skilja, að svo ætti að vera. Það er ekki óeðlilegt, þó að það sé skýrt tekið fram í l., hver eigi að bera áhættuna af gengisbreyt. Ég vildi aðeins fá að heyra þetta áður en málið nær fram að ganga.